141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016.

582. mál
[23:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að stytta umræðuna vildi ég gjarnan ræða við hæstv. utanríkisráðherra beint í andsvari.

Hér er gert ráð fyrir því að tvöfalda nánast útgjöld ríkissjóðs á næsta kjörtímabili. Það er fyrir næsta fjármálaráðherra að glíma við eins og margt annað sem við ræðum. Þar er gert ráð fyrir metnaðarfullum áætlunum sem ganga reyndar ekkert voðalega langt, ég hefði jafnvel viljað sjá gengið lengra. En ég hefði viljað sjá þær í byrjun kjörtímabils þegar ríkisstjórnin hefur starf og ber ábyrgð á fjárlögum sjálf en koma ekki með þær sjö dögum fyrir lok kjörtímabilsins. Það eru sjö starfsdagar eftir og þá ætla menn að fara að ræða um stóraukin útgjöld fyrir ríkissjóð á næsta kjörtímabili, fyrir næsta hæstv. fjármálaráðherra.

Frú forseti. Ég vil leggja til auk þess að þessari tillögu verði vísað til fjárlaganefndar, því efni hennar heyrir undir hana að mestu leyti, hún þarf að greiða úr þeim flækjum sem hér bíða.