141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég ætlaði að biðja þingmenn að gefa mér hljóð …

(Forseti (SIJ): Forseti biður um að það sé aðeins einn fundur í salnum.)

Það veldur mér rosalega miklum trega, í ljósi þess að þetta er sennilega næstsíðasta ræðan á þinginu um stjórnarskrána sem hér fer fram, hversu fáir þingmenn eru í salnum — og engir fjölmiðlar frekar en venjulega út af því að ný stjórnarskrá skiptir greinilega ekki neinu máli þrátt fyrir að svona margir hafi mætt til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október á síðasta ári.

Mig langar til og ég hef reynt að tala lausnamiðað í þessu máli. Það vill svo til að mér þykir vænt um allt þetta ferli með öllum sínum vanköntum og öllum litlu og stóru sigrunum í kringum það. Mér þykir vænt um þetta mál, mér þykir vænt um ferlið, mér þykir vænt um þessa stjórnarskrá. Mér finnst vænt um það út af því að þjóðin fékk að taka þátt. Þjóðin fékk að taka þátt í þjóðfundi, það var hlustað á þjóðina — og langflestir flokkarnir gerðu sér grein fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að fólk vildi nýja stjórnarskrána. Fyrir utan þetta hús var kallað eftir fjórum hlutum. Það var orðið við þremur en sá fjórði stóð út af sem var ný stjórnarskrá, skrifuð af þjóðinni til handa þjóðinni.

En nú er þingið er komið í öngstræti á síðustu metrunum. Og það finnst mér óendanlega sorglegt.

Út af því að ég sagðist vilja tala lausnamiðað ætla ég að byrja á að þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, réttara sagt meiri hlutanum þar, fyrir mjög góða vinnu á lokasprettinum, alla jafna meðan nefndin hefur haft þetta mál á sinni könnu. Ég verð þó að gagnrýna hve langan tíma það tók nefndina að koma þessu máli í ferli eftir að stjórnlagaráð kom nýrri stjórnarskrá í þeirra hendur.

En eins og ég sagði þykir mér vænt um þetta ferli með öllum sínum ambögum og sigrum. Þess vegna þegar við loksins fáum þetta inn í þingið fullbúið, búið að koma til móts við alveg ótrúlega óbilgjarna gagnrýni — gleymum því ekki að í þessu ferli höfðu allir þeir sem gagnrýndu ferlið tækifæri til að taka þátt. Allri akademíunni sem steig fram á sjónarsviðið og sagði að þetta væri ómögulegt var ítrekað boðið að borðinu en hún þáði það ekki. Samt var hlustað á hana og tekið tillit til þess sem sagt var. Og nú höfum við í höndunum plagg þar sem enginn stórkostlegur ágreiningur er um mannréttindakaflann. Það er enginn stórkostlegur ágreiningur um meginundirstöður og burðarbita þessarar nýju stjórnarskrár. Það standa út af örfáir hlutir.

Af hverju, forseti, fáum við ekki að ljúka þessum áfanga málsins á þinglegan hátt? Um það sem út af stendur getum við greitt atkvæði sérstaklega, það er hægt að koma með breytingartillögur. Af hverju fær þetta mál ekki sitt þinglega ferli? Hvað er það sem hindrar? Skyldu það vera allir þeir hlutir sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir ræddi um í sinni ræðu? Getur það verið? Getur það verið að þeir þingmenn sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir á Alþingi ætli að láta beygja sig undir slíka svívirðu? Ég trúi því ekki. Ég vil heita á þá félaga mína sem ég veit að geta staðið í lappirnar að tryggja að þetta mál fari ekki þannig frá þinginu núna í lok þingsins að næsta þing geti gert hvað sem er við tillögur stjórnlagaráðs. Það er ekki nokkur virðing borin fyrir þessum tillögum hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það er engin virðing borin fyrir þeim. Þeir munu taka þetta fallega plagg, þessa heildstæðu endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins, sem gerð er á þann hátt að fólk úti um allan heim öfundar okkur af aðkomu almennings að því, og láta sem það sé ekki til. Ætlum við að missa þetta úr greipum okkar á síðustu stundu og láta einhverja örfáa aðila skemma ferlið af því að þeir treysta í einhverri blindni — ég trúi ekki einu sinni að þetta sé traust, þetta er einhver undarleg pólitík sem ég skil ekki, pólitík sem fer þvert á það sem við lofuðum. Við lofuðum, við settum þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvar eru þingmennirnir 35 sem gerðu það? Hvar eru þeir?

Við settum þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu, við treystum á dómgreind þjóðarinnar, við báðum um leiðsögn og nú ætlum við að gefa henni puttann.

Ég skammast mín fyrir að tilheyra þjóðþingi sem gerir slíkan hlut og ég vil ekki fyrr en í fulla hnefana trúa því að við séum bara þrjú sem ætlum að taka þetta alla leið. Tökum stjórnarskrána heildstætt og leggjum hana í dóm Alþingis. Við getum ekki skilið við hana svona. Ég hef hlustað á formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins segja að þeir geti gert hvað sem þeim sýnist við stjórnarskrána ef við tryggjum ekki að búið sé að greiða atkvæði um hana og þingið verður leyst upp á þeim forsendum sem ný stjórnarskrá býður upp á.

Það er ekki hægt að treysta fólki í stjórnmálum. Ég hélt að við værum búin að læra það. Ég hélt að við værum tilbúin að horfast í augu við vanmátt okkar. Þó að tillagan sé falleg, sem kom frá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og öðrum þingmanni Bjartrar framtíðar, um að við getum setið hér tárvot á 70 ára afmælinu á næsta ári og haft þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá held ég að það sé alveg ótrúlegur barnaskapur að halda að það verði sú stjórnarskrá sem við höfum í höndunum í dag. Það verður ekkert í líkingu við hana. Þingið hefur ekki getað gert þetta í 70 ár, þess vegna fólum við þjóðinni þetta verk. Þess vegna verðum við að tryggja að þetta ferli endi ekki á þann hátt að næsta þing hafi frítt spil og við fáum ekki nýja stjórnarskrá fyrr en eftir næstu 70 ár eða næst þegar það verður það mikið hrun hér á Íslandi að ekki verður annað hægt en að hlusta á þjóðarvilja og fara eftir þeim kröfum sem koma frá samfélaginu.

Nei, nú ætlar þingið bara að múra sig hérna inni aftur. Það getur haft mjög slæmar afleiðingar en við skulum muna að það öngstræti sem við erum komin inn í er mannanna verk. Við getum komið okkur út úr því öngstræti því að hver sá sem væri ábyrgur fyrir því að þessi ræða mín verði eins konar líkræða yfir nýrri stjórnarskrá — stjórnarskrá sem kom frá stjórnlagaráði sem eitt sinn var stjórnlagaþing sem eitt sinn var þúsund manna þjóðfundur sem endaði í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meiri hluti þjóðarinnar sagði: Við viljum þessa stjórnarskrá.

Ég skora á samþingmenn mína sem ég veit að hafa bein í nefinu að taka þátt í dagskrárbreytingartillögu þingmanna Hreyfingarinnar. Ég ætla að ljúka þessum orðum mínum á ljóði sem kom upp í huga minn áðan þegar ég var að hugsa um þetta. Það heitir Frændi, þegar fiðlan þegir og er eftir Halldór Laxness. Mig langar að biðja þingmenn að hlusta vel á þetta ljóð því að það minnir mig svolítið á þetta ferli.

Frændi, þegar fiðlan þegir,

fuglinn krýpur lágt að skjóli,

þegar kaldir vetrarvegir

villa sýn á borg og hóli,

sé ég oft í óskahöllum

ilmanskógum betri landa,

ljúflíng minn sem ofar öllum

íslendíngum kunni að standa,

hann sem eitt sinn undi hjá mér

eins og tónn á fiðlustreingnum,

eilíft honum fylgja frá mér

friðarkveðjur brottu geingnum.

Þó að brotni þorn í sylgju,

þó að hrökkvi fiðlustreingur,

eg hef sæmt hann einni fylgju:

óskum mínum hvar hann gengur.

Og það er mín ósk að stjórnarskráin okkar fái að fara í þinglega meðferð. Það er ævarandi skömm allra þeirra þingmanna sem standa í vegi fyrir því ef þeir gera það.