141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo gjörsamlega afhjúpandi hversu langt úti á túni þessi Framsóknarflokkur er. Að hlusta á röksemdafærsluna fyrir þessari fáránlegu tillögu, þessu útspili í hádeginu í dag, málamiðluninni stóru. Það sýnir sig að Framsóknarflokkurinn hefur hvergi komið að umræðum um þetta mál í tvö ár. Hvað hefur hann verið að gera? Af hverju vill Framsóknarflokkurinn allt í einu núna koma að einhverju borði og ræða við aðra hér í þinginu? Ekki hefur sá vilji komið fram í þinginu hingað til og heldur ekki á fundum nefndarinnar. Mér heyrist menn helst vilja vera í einhverjum reykfylltum bakherbergjum við þá iðju, alla vega ekki uppi á borði og ekki inni í nefndinni. Ekki hefur komið fram ein einasta tillaga. Jú, ein tillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í minnihlutaáliti sem lesið var upp í dag, um að nú skyldu allir þingmenn og þingflokkar sameinast um þingsályktunartillögu um framhald málsins.

Hvað segir nú Framsóknarflokkurinn í dag? Nei, ekki þingsályktunartillögu heldur yfirlýsingu. Yfirlýsingu sem ekki bindur nokkurn mann, sem kjósendur geta hvergi haft neitt hald í. Það er eitt af þremur atriðum sem fram koma í þessu plaggi frá Framsóknarflokknum.

Hv. þingmaður er að reyna að slá sig til riddara á því að í skjalinu sé nefnt að ekki eigi að selja auðlindirnar úr landi. Þetta er skjal sem biður um að LÍÚ fái eignarrétt á fiskauðlindinni, því að ákvæðið er skrifað í kringum það, en svo má ekki setja það til útlendra aðila, í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Ég vek athygli þingmannsins á 73. gr. í því frumvarpi (Forseti hringir.) sem við ræðum hér sem og 35. gr. Ég er alveg viss um að hv. þingmaður hefur ekki (Forseti hringir.) lesið 73. gr. og hefur ekki hugmynd um hvað stendur í henni.