141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason hvort honum finnist ekki svolítið sérstakt — nú þykist ég vita að hann styðji eigin tillögu — að leggja fram breytingarákvæði sem í raun og veru er aðeins bráðabirgðabreytingarákvæði, á ekki að vera varanlegt heldur einhvers konar bráðabirgðaákvæði. Mér finnst þetta svolítið sérkennilegt. Ég efast ekki um að hægt sé að leggja fram málið í þessum búningi þótt ég hafi ekki skoðað það í þaula, þetta er nýkomið fram, en þetta stingur hins vegar svolítið í augu. Það er gott og gilt að koma með tillögu um að breyta fyrirkomulagi stjórnarskrárbreytinga, breyta því ákvæði stjórnarskrárinnar sem varðar stjórnarskrárbreytingar, en mér finnst svolítið sérkennilegt hvernig þetta mál ber að og vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hans í þeim efnum.

Ég velti líka fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái ekki að þarna er um að ræða töluvert frávik eða hjáleið fram hjá núgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um breytingar sem felur það í sér að stjórnarskipunarlög séu samþykkt á einu þingi, efnt sé til kosninga og að nýtt þing þurfi að samþykkja frumvarpið óbreytt til að það taki gildi sem stjórnarskipunarlög. Þarna, eftir því sem ég les úr þessu, gæti málið þess vegna tekið töluverðum breytingum eftir næstu alþingiskosningar án þess að ferlið sem gert er ráð fyrir í núgildandi stjórnarskrá, 79. gr., gengi eftir til enda með þeim hætti sem gert er ráð fyrir.