141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað slær þetta mál mig með öðrum hætti en þá sem standa að því. Ég sá svo sem ekki tillögutextann fyrr en fyrir um það bil klukkutíma eða svo þannig að ég vissi ekki nákvæmlega hvernig útfærslan yrði af hálfu forustumanna stjórnarflokkanna. Ég verð að segja, til að hafa sagt það, að mér finnst þegar ákveðið álitamál — og ég hef nokkrar áhyggjur af því ef menn ætla að velja sér hugsanlega einhverja léttari leið til að breyta stjórnarskrá í næstu lotu ef svo má segja en reisa svo frekari girðingar í framtíðinni ef það verður niðurstaðan að það sé skynsamlegt. Mér geðjast ekki að því fyrirkomulagi, að þeirri hugmynd, bara þannig að það sé sagt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann: Eru þau tvö þingmál sem hér eru á dagskrá í dag (Forseti hringir.) tengd svo órjúfanlegum böndum í hans huga og annarra flutningsmanna að þau verði ekki afgreidd aðskilið?