141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það gerast nú heldur betur sviptingar í stjórnarskrármálum frá því að breyta stjórnarskránni í heilu lagi, koma með heila nýja stjórnarskrá, í það að koma með bráðabirgðaákvæði um stundarsakir til að breyta henni lítils háttar.

Ég vil í fyrsta lagi gagnrýna það sem hv. þingmaður sagði og ég þakka honum fyrir ræðuna. Hann sagði að 3/5 hlutar þjóðarinnar hefðu greitt þessu atkvæði. Það er ekki rétt, það voru 3/5 hlutar þeirra sem mættu á kjörstað. Það þarf ekki að vera nema fjórðungur þjóðarinnar.

Það fyrsta sem ég vildi spyrja hv. þingmann er: Segjum að 40% mæti á kjörstað og af þeim greiði 3/5 hlutar atkvæði og þá er sem sagt nóg að 25% þjóðarinnar greiði atkvæði. Finnst hv. þingmanni það nægjanlegt? Er það vottur um að meiri hluti þjóðarinnar sé sammála stjórnarskrárbreytingu að svo lítill hluti samþykki hana?

Svo vildi ég spyrja hann vegna þess að fyrir Alþingi liggur frumvarp sem ég hef flutt, við erum 17 þingmenn á því frumvarpi, um að breyta stjórnarskránni með hærri þröskuldum: Óttast hv. þingmaður að svona háir þröskuldar bregðist vegna þess að fólk hafi ekki almennt áhuga á stjórnarskrárbreytingum? Óttast hann að almenningur hafi ekki áhuga á því að mæta til kosninga og greiða atkvæði um stjórnarskrána, jafnvel ekki um eitt stykki heila stjórnarskrá? Það er önnur spurningin.

Svo er þriðja spurningin: Hv. þingmenn sem standa að þessu máli eru þrír, þ.e. formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Vinstri grænna, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, og Guðmundur Steingrímsson sem er formaður Bjartrar framtíðar. Er þetta nýr ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi, eða hvernig ber að túlka þetta?