141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

642. mál
[21:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það mál sem liggur fyrir er að mínu mati sérkennilegt eins og það sem var til umræðu áðan. Ég verð þó að segja að mér finnst málið sem liggur fyrir eiginlega enn þá óskiljanlegra en það sem áður var rætt.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að samþykkt frumvarpsins, hins fyrra máls, mundi með vissum hætti gera breytingar á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili léttari. En hvaða gildi felst í þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir hér, hvert er gildi hennar? Inn í hana eru skrifaðar ótal forsendur sem tillöguflytjendum má vera ljóst að stór hluti þingmanna getur ekki skrifað upp á. Það eru skrifaðar inn í tillögutextann sjálfan forsendur sem snerta umdeildustu atriði stjórnarskrármálsins á þessu kjörtímabili þannig að ég velti fyrir mér hvaða gildi tillagan á að hafa umfram það að vera yfirlýsing af hálfu ágætra formanna flokka um vilja þeirra í því sambandi. Það er alla vega ljóst að þingsályktunartillagan hefur engin áhrif umfram það sem pólitísk viljayfirlýsing tiltekinna þingmanna eða tiltekinna formanna stjórnmálaflokka hefði.

Það er líka alveg ljóst að ef nýr þingmeirihluti myndast í maí (Gripið fram í.) munu menn nálgast málin með ólíkum hætti. (Utanrrh.: Af hverju ekki í apríl?) Eða í lok apríl. Það verður að öllum líkindum kosið 27. apríl, kannski fyrr. Ég held að jafnvel þótt tillaga hv. þm. Þórs Saaris næði fram að ganga yrði erfitt að koma við kosningum fyrir þann tíma. Ég held að það mundi hugsanlega frá tæknilegu sjónarmiði geta flýtt kosningum um viku en ég er ekki viss um að nokkrum þyki það skynsamleg niðurstaða úr því sem komið er.

Hvað sem má segja um það er alla vega ljóst að ekkert gerist sem máli skiptir fyrr en að loknum kosningum hvort sem er, ekki fyrr en kominn er nýr þingmeirihluti hvernig svo sem hann verður saman settur. Ekki veit ég það, ekki hv. þingmenn og ekki tillöguflytjendur.

Þess vegna spyr ég: Hvaða tilgangi ætti það hugsanlega að þjóna að álykta eins og er kveðið á um hér? Vissulega mætti hugsa sér að tillaga væri samþykkt sem eingöngu fælist í upphafi síðari málsgreinarinnar í tillögutextanum, þ.e. að kjósa fimm manna nefnd til að vinna að frekari stjórnarskrárbreytingum. Það gæti hugsanlega orðið sátt um einhverja slíka niðurstöðu ef búið væri að strika út þær forsendur sem byggja á pólitískum viðhorfum flokkanna sem standa að baki tillögunni.

Ef ég fer yfir tillögutextann segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að mikilvægt sé að leiða til lykta það ferli stjórnskipunarumbóta sem hófst í aðdraganda kosninga 2009 og hélt áfram með þjóðfundi, starfi stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs og tillögu ráðsins til nýrrar stjórnarskrár 2011, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, þar sem fram kom stuðningur við smíði nýrrar stjórnarskrár, og þinglegri meðferð frumvarps á þeim grunni.“

Allt eru þetta meira og minna umdeildir þættir ef undan er skilið þar sem vísað er til þjóðfundar og starfs stjórnlaganefndar sem byggði á vissri málamiðlun í þinginu 2010, aðrir þættir eru mjög umdeildir. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um að mjög skiptar skoðanir eru um hvort yfir höfuð sé um að ræða einhverjar umbætur eða óvissuleiðangur. Þegar talað er um það sem gerðist í aðdraganda kosninga 2009 er það að mínu mati hreint hneyksli sem þáverandi ríkisstjórn og hennar fylgiflokkar reyndu að gera á síðustu vikum þingsins það ár. (Utanrrh.: Það var Framsóknarflokkurinn líka.) Hreint hneyksli hjá Framsóknarflokknum sem hefur sem betur fer snúið til betri vegar í þeim málum eins og ráða má af ágætum ræðum sem talsmenn þess flokks hafa flutt í þessari umræðu. Það hefur líkað skilaði sér í fylgisaukningu. Þegar Framsóknarflokkurinn hætti að vera villuráfandi sauður skilaði það sér í auknu fylgi til flokksins. (Utanrrh.: Ekki hjá Sjálfstæðisflokknum.) Nei, við erum nokkuð stabílir.

Þegar horft er til annarra þátta sem eru nefndir þarna er alveg augljóst að ætlunin er ekki að ná samkomulagi um niðurstöðuna. Síðan má auðvitað velta fyrir sér seinni lið tillögunnar um að kosin verði fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu á næsta kjörtímabili. Það er vel hugsanlegt að menn gætu komið sér saman um það. Hins vegar er nauðsynlegt að það komi fram í umræðunni að ekkert samkomulag er um það og það verður ekkert samkomulag um að slík stjórnarskrárnefnd verði bundin af þeim forsendum sem gefnar eru í þeirri tillögu um að unnið verði á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Ég held að öllum megi vera ljóst af umræðum sem hafa farið fram um þau mál að um það er ekkert samkomulag, hvorki innan þessara veggja né í samfélaginu. Það er ekkert samkomulag, þetta er stórpólitískt umdeilt mál þannig að ályktun þingsins í þá veru er auðvitað undir það sett að verða endurskoðuð þegar nýtt þing kemur saman innan fárra vikna. Því spyr ég enn: Hvaða tilgangi á þetta að þjóna?

Fyrir utan það er auðvitað viss ósvífni fólgin í því að ætla að binda hendur næsta þings eins og er gert hér. Auðvitað mun það ekki hafa raunveruleg áhrif vegna þess að nýtt þing getur að sjálfsögðu tekið nýja ákvörðun, þess vegna í fullkominni andstöðu við það sem stendur hér ef meiri hlutinn á næsta þingi verður öðruvísi samsettur en sá sem nú situr. Það er meira að segja nokkuð líklegt miðað við hvernig straumar eru í dag þótt ég segi það auðvitað með þeim fyrirvara að enginn veit sín örlög í pólitík. Við vitum ekki hver útkoma einstakra flokka verður eða hverjir sitja í þessum sal að loknum kosningum, við vitum ekkert um það.

Ég verð að segja að mér finnst þau rök, sem þó eru fyrir fyrra málinu, að það hafi einhver raunveruleg áhrif ekki eiga við um þetta mál með nokkrum hætti. Ef formenn ríkisstjórnarflokkanna og formaður Bjartrar framtíðar hefðu viljað leggja til einhverja málsmeðferð, einhverja nefnd sem ætti að vinna að einhverju tilteknu á næstu vikum — af því að nýtt þing mun hvort sem er koma saman kannski eftir átta vikur — ef þeir hefðu viljað kjósa einhverja nefnd, sem er það sem gæti verið áþreifanlegt í þessari tillögu, hefði auðvitað átt að bera það þannig fram að aðrir í þinginu gætu hugsanlega skrifað upp á það en ekki með því að hafa inni í því forsendur af því tagi sem er að finna hér og aldrei verður samkomulag um.