141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sagt hefur verið að pólitíkin sé gráðug tík með augu jafnstór og tunglið. Víst getur hún verið gráðug skepna þessi pólitík, gráðug í athygli, gráðug í völd, eins og í dag þegar við greiðum atkvæði um tilgangslausa vantrauststillögu sem flutt er fáum dögum fyrir þinglok, örfáum vikum fyrir kosningar. Tillagan er í fullkominni mótsögn við yfirlýstan tilgang sinn. Hún er flutt undir yfirskyni stjórnarskrármálsins og er það mikilvæga mál þar með tekið í pólitískan sjálfsmorðsleiðangur í því eina skyni að sverta ríkisstjórn og svala athyglisþörf þingmanns í tilvistarvanda.

Víst loga kastljósin á ásjónu þingmannsins [Kliður í þingsal.] þessa stund, en verði vantraust samþykkt hér í dag er úti um stjórnarskrármálið. (ÞSa: Talaðu um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.)