141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

endurbætur björgunarskipa.

471. mál
[17:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með formanni allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, hér er á ferðinni mikið framfaramál sem allsherjarnefnd hefur sameinast um. Það er ánægjulegt, en samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021.

Hér er á ferðinni mikið nauðsynja- og framfaramál. Ég sé ástæðu til að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni sérstaklega fyrir að hafa haft forgöngu um þetta mál. Ég þekki það á eigin skinni að hann hefur margoft bankað upp á í mínum ranni og hvatt til þess að við huguðum að þessum úrbótum. Síðan hafa þingmenn úr öllum flokkum komið að málinu, bæði með hv. þm. Jóni Gunnarssyni og síðan allsherjarnefnd núna, þannig að sýnt er að það verður að veruleika og því ber að fagna.