141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Talið er að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna sé á bilinu 100–130 milljarðar árlega. Þarna opnast að minnsta kosti svigrúm fyrir fjárfestingar upp á 100 milljarða. Þá er ekki þar með sagt að þeir muni nota það allt saman þó að það svigrúm sé gefið vegna þess að þeir vilja auðvitað fara varlega og sérstaklega þegar um er að ræða óskráð bréf. Þarna er að minnsta kosti opnað fyrir auknar fjárfestingar lífeyrissjóðanna upp á 100 milljarða. Svo verðum við bara að sjá hvernig menn nýta það.

Þetta er kannski ekki neitt úrræði sem dugar lengi, sérstaklega í ljósi þess að við erum hreinlega í þeirri stöðu að vera með ákveðna hættu á töluverðum skekkjum í markaðsbúskap okkar hér á landi á meðan við erum með gjaldeyrishöftin eða fjármagnshöftin, eins og þau eru nú kölluð, við lýði.