141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ljóst er að það er snjóhengjan sem heldur raunvöxtum niðri eða þrýstir þeim niður og eykur auk þess samkeppni um þá litlu fjárfestingarkosti sem eru í boði fyrir utan það að fjárfesting er í lágmarki þrátt fyrir lækkun vaxta, sem er dálítið merkilegt. Sem sýnir það að mjög mikil vantrú og lítið traust er á markaðnum. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því með áhættuna, það er verið að slaka á kröfum, verið er að auka heimildir til að fjárfesta. Nú er það þannig að mjög fáir stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum hafa sagt af sér eða hætt þrátt fyrir mikið tap lífeyrissjóðanna í hruninu. Hvað veldur því eiginlega að það gerist ekki? Það ber enginn ábyrgð.

Varðandi það sem er í 1. gr., að launagreiðendur fái að greiða sína skuld. Þarf ekki að setja á það takmörk í lengd, hvað skuldabréfið má vera til langs tíma?