141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir hversu iðin hún hefur verið við að sitja umræðuna og svara fyrirspurnum. Ég ætla að vona að ekki verði lát á því þó ég sé mættur í ræðustól, ég er nefnilega með nokkrar fyrirspurnir.

Í fyrsta lagi geri ég athugasemd við það, eins og fleiri, að þetta mál er lagt fram 28. febrúar 2013, þ.e. fyrir 10, 12 dögum síðan og dálítið undarlegt ef menn ætlast til þess að það verði samþykkt á þessu þingi.

Það sem ég ætlaði að byrja á að tala um er 1. gr., sem fáir hafa talað um. Þá kem ég að spurningu til hæstv. ráðherra: Hvaða aðilar eru það fyrir utan ríkið sem geta notað sér 1. gr.? Nú greiðir launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags og svo framvegis. Þarna er um að ræða alls konar fyrirtæki og stofnanir. Sú var tíðin að menn fóru dálítið frjálslega með heimildina um aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég held að starfsmenn ASÍ hafi verið tryggðir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, starfsmenn Búnaðarsambandsins hvort sem er og meira að segja starfsmenn stjórnmálaflokka held ég að hafi verið flokkaðir þarna inni. Það er reyndar dálítið langt síðan, en þessar skuldbindingar eru enn þá til. Það er nefnilega það merkilega, herra forseti, að lífeyrisskuldbindingar eru mjög langlífar. Maður sem greiðir um þrítugt inn í lífeyrissjóð getur átt rétt á lífeyri þegar hann er 90 ára, 60 árum seinna. Það er þetta sem er að fara með til dæmis Grikki og fleiri. Lífeyrisskuldbindingum er auðvelt að lofa en erfitt að halda, við skulum segja það þannig.

Lífeyrisskuldbinding vegna B-deildar LSR sem þessi grein á við um er um 400 milljarðar, sem sagt að mestu leyti ógreiddir 400 milljarðar.

Þá gengur hæstv. ráðherra í salinn. Hann hefur verið iðinn við að svara fyrirspurnum sem ég tel vera mjög jákvætt, ég var einmitt að hrósa hæstv. ráðherra hér áðan. Þá kem ég með spurningu til ráðherrans: Hvaða launagreiðendur falla undir 1. gr.? Nú geri ég ekki ráð fyrir því að ráðherrann hafi það á takteinum, en ég taldi upp nokkra eins og starfsmenn stjórnmálaflokka, ASÍ og fleiri sem einu sinni áttu rétt þarna. Það er löngu afnumið að ég held, en réttindin eru þarna inni og það á eftir að greiða þau. Ég sit í hv. nefnd sem fær þetta væntanlega til umsagnar og ég sakna þess, herra forseti, að aðrir úr nefndinni fyrir utan herra forseta eru ekki hér staddir, en ég mun færa nefndinni þessa umræðu svo fremi sem menn fylgist ekki með henni í gegnum sjónvarp.

Ég reikna með að nokkuð skrautleg flóra af fyrirtækjum beri þessa skuldbindingu. Sveitarfélög eða fyrirtæki sveitarfélaga skulda að sjálfsögðu inn í Lífeyrissjóð sveitarfélaga. Síðan eru ýmis fyrirtæki sem frá fornri tíð áttu réttindi, þau sitja áfram meðan viðkomandi starfsmenn eru á lífi.

Inni í B-deildinni eru furðulegir hlutir eins og 30 ára hámark á iðgjaldagreiðslu sjóðfélaga. Eftir 30 ár fellur hún niður. Það er reglan um 95 ár, það er þegar samanlagður starfsaldur og ævialdur er 95 ár þá getur maður farið á lífeyri. Það þýðir það að við einstaka tilfelli getur maður farið á lífeyri 59 ára. Það minnir mig á það, herra forseti, að það er einmitt lífeyrisaldur hjá Grikkjum, þeir fá 90% af launum 59 ára.

Ágætt væri að fá upplýsingar um þessi fyrirtæki og ekki væri verra að fá upphæð skuldbindingarinnar sem hvert og eitt þeirra skuldar, ekki bara hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins heldur líka hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og hjá sveitarfélögum.

Ég tel mikilvægt að þær upplýsingar komi fram vegna þess að þetta eru jú allt skuldbindingar sem skattgreiðendur eða útsvarsgreiðendur bera ábyrgð á og mér finnst að þeir eigi að fá að vita það.

Greinin segir að fyrirtæki geti greitt skuldbindingarnar með skuldabréfi, gefið út skuldabréf. Það er á margan hátt jákvætt, herra forseti, vegna þess að þá er búið að formgera skuldina. Hún er þá með ákveðnum gjalddögum, þá fara menn að borga væntanlega og eru neyddir til. Það sem vantar inn í þessa grein er að afmarka þarf til hversu langs tíma skuldabréfið má vera. Það ætti að vera nokkurn veginn í takt við skuldbindingu viðkomandi fyrirtækis eða launagreiðanda, stofnunar eða hvað það nú er.

Ég geri ekki ráð fyrir því að menn geti fengið meiri ábyrgðir á bak við þetta. Skuldabréfið er nákvæmlega jafnmikils virði og ábyrgðin sjálf.

Þá kemur að annarri spurningu varðandi 1. gr.: Hefur reynt á það að launagreiðandi hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar? Nú er yfirleitt ekki bakábyrgð til dæmis hjá stjórnmálaflokkum, þeir geta jafnvel lognast út af. Hvað gerist með slíkar skuldbindingar, ef um það er að ræða? Hefur reynt á að slík skuldbinding hafi ekki verið greidd? Hvað gerist þá með viðkomandi réttindi?

Svo vil ég hvetja hæstv. ráðherra til þess að ganga til samninga við opinbera starfsmenn um þessa skuldbindingu þannig að hún sé alla vega sett inn í fjárlög. Hún er ekki inni í fjárlögum, hvorki varðandi B-deildina né A-deildina. Þar hrannast upp skuld þó A-deildin hafi verið sett á koppinn árið 1997 í aðlögunarsamningum við opinbera starfsmenn með því augnamiði að hún stæði undir sér. Þangað áttu allir nýir starfsmenn ríkisins að borga og hún átti að standa undir sér. Hún gerir það ekki, herra forseti. Það þarf að hækka iðgjaldið sennilega um 4% af launum opinberra starfsmanna ef ekki meira og þarna vantaði síðast þegar ég vissi 57 milljarða, litla 57 milljarða. Það er eitt af stóru götunum í fjárlagafrumvarpinu sem ekki er fyllt. Annaðhvort fara menn þá leið eða hækka iðgjaldið sem þýðir 4 milljarðar á ári um ókomna framtíð. Þá er iðgjaldið komið upp í 19,5% hjá opinberum starfsmönnum. Það er vegna þess að réttindi þeirra eru sem því nemur betri heldur en réttindi á almenna markaðnum og þá er eins gott að menn meti það í sambandi við kjarasamninga að launin séu sem því nemur lægri.

Þá held ég að ég sé búinn með 1. gr. Þá kemur að 2. gr. sem fjallar um að framlengja ákvæði um að menn megi eiga skuldabréf um eitt ár og eins er framlengt ákvæði um að menn megi eiga skráð skuldabréf.

3. gr. fjallar um að lífeyrissjóðirnir megi eiga óskráð hlutabréf. Eftir hrun þá hrundu skráð hlutabréf lífeyrissjóðanna í verði. Það væri nú alveg umræðunnar vert, herra forseti, að fara í gegnum af hverju það gerðist og hvort sé búið að laga það. Ég held því fram að hringeignarhald og raðeignarhald á hlutabréfamarkaði hafi valdið því að fyrirtæki sýndu miklu hærra eigið fé heldur en raunverulega var til staðar, enda hefur komið í ljós aftur og aftur eftir hrun að í sæmilega stöndugum fyrirtækjum var ekkert eigið fé. Þetta var allt saman eitt hjóm og loft. Það er ekki búið að laga. Maður hefur jafnvel grun um að verið sé að vinna svona áfram. Mér finnst að lífeyrissjóðirnir sem halda áfram að fjárfesta í skráðum félögum ættu að skoða sinn gang og athuga hvort ekki sé ástæða til að gera alla vega þá kröfu að fyrirtæki lýsi því yfir að þau muni ekki stunda hringeignarhald. Það er alltaf stjórn hlutafélags sem ákveður að kaupa hlutabréf í einhverju fyrirtæki einhvers staðar úti í heimi og sá peningur fer hugsanlega í hring þannig að það er stjórnin sem kemur að því að ákveða hringeignarhald. Mér finnst að það ætti að vera bannað og hef reyndar flutt um það frumvarp í tvígang. Mér finnst að stjórnirnar gætu lýst því yfir gagnvart lífeyrissjóðunum að þeir munu ekki stunda slíka hringferla fjár. Hringferlar fjár eru stórhættulegir og sýna einhverja allt aðra og miklu betri stöðu hjá fyrirtækinu heldur en er til staðar.

Vandinn með lífeyrissjóðina er að þetta er skyldusparnaður. Ég ætla að vona að menn geri sér grein fyrir því. Frjáls sparnaður heimilanna er mjög lítill, hann fer hratt minnkandi og er núna eitthvað um 450 milljarðar. Hann var 700 milljarðar fyrir hrun á sama verðlagi og fellur mjög hratt. Hvort tveggja fjárfestingar lífeyrissjóðanna og frjáls sparnaður, þ.e. frjáls sparnaður og skyldusparnaður, er í hörkusamkeppni við snjóhengjuna sem eru krónur sem útlendingar eiga hér á landi. Sú mikla krónueign þrýstir niður vöxtum, bæði hjá innstæðueigendum og hjá lífeyrissjóðunum. Það sýnir að ávöxtunarkrafa á markaði er komin undir 2% á vissum ríkispappírum. Lágmarksávöxtunarkrafa á markaðnum er komin langt undir það vaxtaviðmið sem lífeyrissjóðirnir starfa eftir, sem á eftir að valda þeim miklum vanda.

Það sýnir sig að skyldusparnaður hjá lífeyrissjóðunum var geysilega mikill til að byrja með þegar lífeyrissjóðirnir byrjuðu að starfa. 1969 voru kjarasamningarnir og 1974 var skylduaðild sett í lög. Eftir það byrjuðu að koma inn peningar inn í lífeyrissjóðina og þeir borguðu lítinn lífeyri til að byrja með. Núna hafa lífeyrisgreiðslurnar vaxið mjög hratt. Þær eru komnar upp í 70–80 milljarða á ári. Að því kemur að þær verða jafnháar og iðgjöldin, sem eru 90–100 milljarðar. Á þeim tímapunkti munu lífeyrissjóðirnir hætta að útvega atvinnulífinu og íbúðakaupendum lánsfé. Ég veit ekki til þess, herra forseti, að neinn sé að velta fyrir sér þeim tímapunkti. Ég held að ráð væri að farið yrði að kanna hvenær lífeyrissjóðirnir verða komnir í jafnvægi, hvenær þeir hætta að skaffa sparifé. Hvenær hættir þessi skyldusparnaður að vera sú uppspretta sparifjár sem hann hefur verið síðustu 40 árin? Innlendur sparnaður er mjög laskaður. Þá er spurningin: Hvar fær unga fólkið lán til kaupa á íbúðum og hvar fá fyrirtækin lán til að fjárfesta þannig að þau geti skapað atvinnu?

Þetta er eitthvað sem mér finnst menn verði að skoða í þessu sambandi, en frumvarpið sem við ræðum hér er einmitt til að bregðast við því að lífeyrissjóðirnir hafi ekki markað fyrir sitt fé. Þeir eru lokaðir frá útlöndum. Það er efni í heila ræðu, held ég, að fara í gegnum af hverju það er mikilvægt fyrir þá að fjárfesta í útlöndum, af hverju þeir geti ekki fjárfest bara á Íslandi.

En ég geld mikinn varhuga við 3. gr. vegna þess að það eru svo miklir peningar í lífeyrissjóðunum og það er svo mikil áhætta fólgin í því að fjárfesta í fyrirtækjum sem ekki eru skráð á markaði. Við getum lent í því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti of mikið, of hratt, að þeir gæti ekki að sér eins og skyldi. Það er á grundvelli þessarar víkkuðu reglu sem eykur heimildir þeirra um 5%, úr 20% í 25%, sem eru um 120 milljarðar ef við gerum ráð fyrir því að eignir eru um 2.400 milljarðar.

Þess vegna held ég að sé mjög mikilvægt að hv. nefnd fari mjög vandlega í gegnum málið og kanni hvort þurfi að setja fleiri varnagla gegn því að ekki verði mikið tap hjá sjóðunum út af einmitt 3. gr. Þá er hugsanlegt að sjóðstjórnir og aðrir muni kenna Alþingi um að hafa víkkað út 3. gr. án þess að hugleiða nákvæmlega hve mikil áhætta er fólgin í henni.

Nú hef ég sagt þetta, herra forseti, þannig að alla vega ég get vísað í það seinna meir.