141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ákveðin þversögn í gangi á Íslandi. Vextir fara lækkandi og eru í sögulega í lágmarki. Ég man ekki eftir svona lágum vöxtum í mjög langan tíma, frá því að verðtryggingin var tekin upp, maður þarf að fara aftur til þess tíma þegar fjármagnið var brennt upp í verðbólgu á Íslandi. Þar sem vextir eru mjög lágir kynni maður að halda að allt færi í gang í fjárfestingu en svo er ekki. Ég held að um sé að kenna meðal annars stóraukinni skattlagningu á hagnað fyrirtækja, á vexti af innstæðum og öðru slíku. Búið er að keyra niður viljann til að fjárfesta og menn nenna því ekki lengur. Það fyrir utan er gífurleg flæking á öllu skattkerfinu sem er mjög skaðlegt. Ég held að það sé ástæðan fyrir þversögninni, fyrir því af hverju allir eru ekki á fullu að fjárfesta núna. Svo vantar líka eitt: Traust. Það vantar eiginlega pólitískt traust á því að það borgi sig að fjárfesta.

Ég held að eftir alla umræðuna um fjármagnseigendur sem eru ljótir og vondir menn vilji enginn vera fjármagnseigandi. Þar af leiðandi er ekkert fjárfest og enginn sparar. Það er nefnilega þannig að menn kalla sparnaðinn, eða innstæðuna, fjármagnseiganda. Lífeyrissjóðurinn sem er þvingaður sparnaður heimilanna er kallaður fjármagnseigandi. Heimilin eru því fjármagnseigendur í vondum skilningi.

Ég held að það sé ástæðan fyrir þversögninni sem er í gangi, lágum vöxtum og lítilli fjárfestingu. Því þarf að breyta með því að bæði að einfalda skattkerfið og að sjálfsögðu aflétta þeim sköttum sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett á.