141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mjög áhugavert mál sem snýr að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Þetta er að vísu ekki mjög tæmandi mál að því leytinu til að tiltölulega litlar breytingar hafa verið ræddar en ég hefði viljað ræða þetta í stærra samhengi, þ.e. hvernig við viljum sjá fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna.

Ég tel — hef sagt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og hef sagt það í mörg ár — að við höfum gert mikil mistök fyrir löngu síðan þegar við vorum að ákveða fjárfestingarheimildir fyrir lífeyrissjóði okkar. Ég tel að þau mistök hafi verið að stefna ekki að því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti svo til að öllu leyti í útlöndum. Þá er ég einfaldlega að hugsa til þess að við erum 320 þúsund manna þjóð, við sem búum hér eigum allt undir því hvernig gengur hér á landi. Við eigum oftar en ekki húsnæðið okkar, atvinnuna og í rauninni allt okkar líf, öll eggin eru í sömu körfu. Það er því óskynsamlegt að setja lífeyrissjóðina, því að þetta eru lífeyrissjóðirnir okkar sem við ætlum að lifa af, líka í þá körfu sem Ísland er.

Það kom nú á daginn, virðulegi forseti, að alþjóðlegt bankahrun varð sem kom mjög hart niður á Íslandi. Og að auki út af mistökum stjórnmálamanna okkar varð fasteignahrun. Það er ekki oft en það gerist að í heiminum verða áföll og sveiflur bæði á fasteignamarkaði og sömuleiðis hlutabréfamarkaði og svo sannarlega eru bankakreppur ekki eitthvað sem er alveg nýtt.

Eitt af því sem reyndist okkur vel var að lífeyrissjóðirnir máttu eiga 50% í útlöndum, en eignirnar voru um 25% eða 30%, ef ég man rétt, eitthvað slíkt. Þær eignir stóðust hins vegar og var mjög gott að þeir skyldu eiga þær eignir í útlöndum og það kom afskaplega (Gripið fram í.) — hvað kallar hv. þingmaður? (PHB: … tvöfölduðust að verðgildi, í krónum.) Hv. þingmaður kallar að þær hafi tvöfaldast að verðgildi. Það er bara heilbrigð skynsemi að vera ekki með alla áhættuna á sama stað. Þegar gekk illa á Íslandi var gott að eiga varasjóði í öðrum löndum.

Því miður höfum við jafnt og þétt minnkað erlendu eignina, hún er núna í kringum 20% í sjóðunum og það er hættulega lágt. Í rauninni hefðum við frekar átt að setja gólf, við hefðum átt að setja lög sem kváðu á um að lífeyrissjóðirnir ættu í það minnsta 50% í útlöndum. Ég held að vísu að 70–80% hefði verið betra vegna þess að ég held — þetta eru risastórir sjóðir, þeir eru mjög stórir og það er jákvætt, það væri gott að við værum búin að leggja fyrir bæði fyrir lífeyrinum og sömuleiðis er ákveðin trygging í þessu sem er mjög góð — að hættulegt sé að vera með þetta allt saman hér á sama stað, í lokuðu hagkerfi með fjármagnshöft. Ef annað áfall yrði núna á Íslandi værum við ekki á sama stað og við vorum hvað varðar lífeyrissjóðina fyrir bankahrunið.

Það eru líka afleiddar afleiðingar, sem eru slæmar. Ég tel að ef íslensku lífeyrissjóðirnir hefðu ekki fjárfest eins og þeir gerðu innan lands — þeir fjárfestu innan lands af því að ávöxtunin var svo gríðarlega góð, hún var alltaf betri en annars staðar, þeir hefðu væntanlega kvartað þá undan því að geta ekki fengið eins góða ávöxtun af því að hér var allt á fleygiferð innan lands, í það minnsta héldum við það — þá hefðum við séð ýmsa minni veikleika eða vandræði, það hefði örugglega ekki verið jafnmikil hækkun og ekki jafnmikil bóla, því að þegar svona risi er á íslenskum markaði finna menn eðli málsins samkvæmt fyrir því.

Ég stóð að því að þegar við hækkuðum þakið — ég held að þegar ég kom inn á þing árið 2003 hafi sjóðirnir mátt eiga um 30% í útlöndum — þá fórum með það upp í 50%, en við hefðum betur gengið miklu harðar fram og sett hér reglur sem kvæðu á um að þeir þyrftu að setja að lágmarki helminginn af eigum sínum í útlönd. Ég tel að við eigum að stefna að því, og gaman væri að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað það varðar, Mín skoðun er að við eigum að setja áætlun til langs tíma. Ég veit að ekki er gerlegt að breyta þessu á einni nóttu, það segir sig sjálft, en ég held að við eigum að setja stefnuna á að auka hlutdeild lífeyrissjóða, eignir lífeyrissjóða erlendis jafnt og þétt þar til við erum búin að ná um 70–80% af eigunum í það minnsta.

Við skulum alveg átta okkur á því líka að lífeyrissjóðirnir, og þeir eru ekki öfundsverðir hvað það varðar, þurfa að fjárfesta um hundruð milljarða á hverju einasta ári í þjóðfélagi sem er, eins og staðan er núna, mjög lokað og lítið er um fjárfestingarkosti. Og mikil hætta er á því að við séum að búa til bólu vegna þess að lífeyrissjóðirnir komast ekki með fjármagnið sitt neitt annað en að vera með það hér. Ég hefði gjarnan áhuga á að heyra hjá hæstv. ráðherra hvað honum fyndist um þá hugsun, um aukna áhættudreifingu og að við mundum þá fjárfesta aukinni hlutdeild lífeyrissjóðanna í erlendum eignum.

Að vísu má segja að ef einhver eign er sambærileg við þær erlendu er það væntanlega eignin í orkufyrirtækjunum og stóriðjunni, ég hugsa að það sé svona næst því, kannski í sjávarútvegi. Þá er ég að vísa til þess að þær atvinnugreinar eru með tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Ef við gæfum okkur til dæmis að lífeyrissjóðir mundu eiga í orkuveri sem framleiddi í stóriðju væru samningarnir þannig að tekjurnar kæmu í erlendum gjaldmiðlum og auðvitað gilti hið sama ef lífeyrissjóðirnir ættu í til dæmis álveri, að þá væru tekjurnar einnig í erlendum gjaldmiðlum.

Þetta er samt sem áður staðsett á Íslandi og þess vegna er ákveðin áhætta sem því fylgir, og það er áhætta alls staðar. En þetta eru þær innlendu eignir sem kæmust næst því að vera erlendar og við værum þá að fá erlendar tekjur inn í lífeyrissjóðina. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég er opinn fyrir þeim hugmyndum. Ef við hugsum þjóðfélag okkar sem eina heild eru lífeyrissjóðirnir okkar — alla vega er hugmyndin sú og það er það sem gerist að þeir sjá okkur fyrir lífeyri. Þetta er einhvers konar sameign okkar allra, þó svo að hún sé ekki ríkiseign og ég held að það væri óskynsamlegt. En við njótum góðs af ávöxtuninni.

Við erum stór álþjóð, við erum mjög stór á því sviði, því má eiginlega segja að það sé ákveðið slys að eignarhlutur Íslendinga í álinu er mjög lítill, ég held að sögulegar skýringar séu á því, og ég er ekki viss um að það sé sérstaklega jákvætt. Ég átta mig alveg á því og ég skil þá umræðu. Ég skil að menn hafi áhyggjur af því að orkuauðlindin og þar af leiðandi orkufyrirtækin, sem oft og tíðum eru í einhvers konar einokunaraðstöðu, að þau séu í eigu einkaaðila. Ég get skilið áhyggjurnar af því en ég held að við ættum að skoða það gaumgæfilega hvort við getum komið í veg fyrir þá galla sem hugsanlega gætu hlotist af því að hleypa lífeyrissjóðunum í það að eiga einhverja hluta þar inni, því að flest orkufyrirtækin eiga það sameiginlegt að geta tekið mikið meira af lánum. Ef við erum að fara í nýjar virkjanir eða virkja á nýjum stöðum tel ég að við ættum að skoða það mjög vel með opnum huga hvort lífeyrissjóðirnir í stað þess að vera lánveitendur geti orðið eigendur og notið þá arðsins af þeim fyrirtækjum eða orkuverum næstu áratugi og jafnvel árhundruð.

Vandinn núna er sá — og það er væntanlega þess vegna sem við erum að fara í þær leiðir að auka heimildir fyrir fjárfestingar í óskráðum bréfum, sem er svo sannarlega ekki áhættulaust. Og það er ekkert áhættulaust. Það sem við höfum haldið fram að væri áhættulaust er bara ekki áhættulaust. Meira að segja ríkisskuldabréf eru ekki áhættulaus. Við höfum fundið fyrir því í þessu alþjóðlega bankahruni að álagspróf sem hafa verið á banka voru skoðuð sérstaklega eftir bankahrunið og þau voru endurnýjuð hjá Evrópusambandinu. Og þau áttu að vera alveg 100%. En við sáum það til dæmis að belgíski bankinn, Dexia, fór á hausinn, ég held sex vikum eftir að hafa staðist með glans nýtt álagspróf sem var niðurstaða samvinnu á vettvangi Evrópusambandsins. Hver var ástæðan fyrir því? Jú, öll opinber skuldabréf, þ.e. gefin út af ríki og sveitarfélögum, voru afgreidd sem áhættulaus. Ef banki — þessi banki var svo sem ekki eini bankinn sem var í því — var með nógu hátt hlutfall af slíkum skuldabréfum eða lánum í eignasafni sínu þá stóðst hann prófið vegna þess að þá var þetta áhættulaus eða lítill rekstur.

Ríkisskuldabréf Grikklands og fleiri landa voru allt annað en öruggir pappírar og ég tala nú ekki um ákveðin sveitarfélög. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að ekkert er öruggt í þessu, það er ekki til nein örugg fjárfesting. Ef svo væri væri þetta ekki vandamál. Þess vegna skiptir máli að dreifingin sé sem mest þannig að ef eitthvað lætur undan, gjaldþrot verða einhvers staðar, greiðsluföll eða vandræði hjá aðilum, hvort sem það eru opinberir eða einkaaðilar, að vera þá ekki með öll eggin í sömu körfunni.

Ég tel að lífeyrissjóðirnir séu afskaplega mikilvæg stoð í þjóðfélagi okkar og við eigum að líta á þetta í heild sinni. Þess vegna skiptir miklu máli að við dreifum áhættunni og hún sé ekki öll hér á landi.

Við þurfum ekki að sækja fyrirmyndirnar langt. Norski olíusjóðurinn er gott dæmi þar um en hann, eftir því sem ég best veit, fjárfestir eingöngu í erlendum fyrirtækjum og á ekki að fjárfesta í Noregi. Ég held að enginn stjórnmálamaður eða aðili í Noregi vilji snúa af þeirri braut, að meginstefi til í það minnsta, af augljósum ástæðum.

Þess vegna hefði ég viljað sjá, virðulegi forseti, í frumvarpinu aðeins meiri framtíðarsýn. Fram kemur að sérstök nefnd hefur verið að störfum undir forustu Gylfa Magnússonar sem átti að endurskoða þessi ákvæði. Ég skil ekki alveg af hverju — úr því að menn fóru í þá vinnu, sem er svo sannarlega þörf — við sjáum ekki meiri framtíðarsýn í þessu og hugsum ekki til lengri tíma. Miðað við núverandi aðstæður er ljóst að við getum ekki gert róttækar breytingar á fjárfestingarheimildunum en við verðum að hafa einhverja sýn í þessu.

Ég vil heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um það, svo að ég endurtaki það nú aftur. Ég hefði viljað sjá að við settum okkur markmið um það að auka verulega hlutdeild lífeyrissjóðanna í fjárfestingum í öðrum löndum.