141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:28]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru mjög góðar spurningar. Ég skil vel að hv. þingmaður hafi kannski ekki gert upp hug sinn endanlega til þessa máls af því að kostir og gallar eru við það. En í heildina má segja að tveir pólar séu í þessu. Eigum við að láta Ríkisútvarpið sjá um að kynna framboðin og hafa ritstjórnarlegt vald á því eða eigum við að láta framboðin skila inn kynningarefni sínu og fá það sýnt gjaldfrjálst. Eða eigum við að gera það þriðja, og það er það sem ég er að leggja til, þ.e. við eigum að gera hvort tveggja.

Nú þegar höfum við sameinast um það, a.m.k. meiri hluti þingsins, að láta Ríkisútvarpið sýna og kynna framboðin undir ritstjórnarlegu forræði Ríkisútvarpsins. Ég er sátt við það. Ég vil hins vegar bæta hinu við. Gera Ríkisútvarpinu skylt að sýna kynningarefnið frá framboðunum þar sem það hafi ekki ritstjórnarlegt vald yfir því og eigi að sýna það gjaldfrjálst.

Hins vegar verður að búa til ákveðnar reglur utan um það og líklega að gera það í hvert sinn. Þær reglur yrði Ríkisútvarpið að setja í einhvers konar samráði við væntanlega framboðin og komið er inn á það í skýrslu Finns Becks og félaga. Þar er talað um að með því að Ríkisútvarpið fengi að útfæra þetta úrræði „telur nefndin að það geti ætíð sniðið notkun þess að eðli kosninga og/eða fjölda framboða eða frambjóðenda.“ Ef framboðin eru mörg þarf auðvitað að stytta þann tíma þannig að það verði ekki of umfangsmikið í dagskránni. En ég held að ekki sé mikið mál að gera það og eitthvað sem Ríkisútvarpinu er fært að gera.

Einnig eru fjölmargar athugasemdir varðandi það að efni frá nýjum framboðum gæti verið kannski hallærislegra eða frumstæðara af því að þau hafa ekki mikinn pening til að útbúa það og fjallað er aðeins um það í skýrslunni.