141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[22:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans um málið og greinargerð með nefndarálitinu með breytingartillögu. Þingmaðurinn nefndi sérstaklega að niðurstaða nefndarinnar hefði verið að gera ekki tillögu um að heimila breytingar á kosningaaldri við íbúakosningar, eins og hér hefur komið fram. Mig langar til að inna hv. þingmann eftir því hvaða umræða hefur í raun farið fram um efnið.

Í því sambandi vil ég geta þess að ég hef lagt fyrir frumvarp til laga á þinginu sem gerir ráð fyrir því að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár. Það er mál sem hefur verið áður til umræðu á Alþingi og ég kynnti mér einmitt í tengslum við framlagningu þess lagafrumvarps að mikil umræða er víða í löndunum í kringum okkur um að lækka kosningaaldur niður í 16 ár og í sumum ríkjum, t.d. í Þýskalandi, er kosningaaldur 16 ár í sveitarstjórnarkosningum. Mig langar því að heyra frá hv. þingmanni hvort nefndin hafi rætt efnið af einhverri íhygli, hvort það hefði ekki komið til álita af því að eins og þingmaðurinn gat um er í raun og veru um þróunarverkefni eða tilraunastarfsemi að ræða til tiltekins tíma. Hefði ekki verið ástæða til að veita slíkar heimildir, alla vega þannig að sveitarstjórnirnar gætu tekið sjálfstæða ákvörðun um hvort þær vildu lækka kosningaaldurinn í þeim tilvikum?

Eins vil ég inna þingmanninn eftir því hvort það hafi verið umræður á vettvangi nefndarinnar um svona þróunarstarf, t.d. í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur eða jafnvel aðrar kosningar en sveitarstjórnarkosningar.