141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi benda hv. þingmönnum á að kynna sér umfjöllun sem finna má í Morgunblaðinu í morgun um hagvöxt og stöðu efnahagsmála. Þar er rætt við nokkra sérfræðinga og talsmenn samtaka á vinnumarkaði um nýjustu fréttir af hagvexti frá Hagstofu Íslands sem eru satt að segja mjög alvarlegar. Nýir útreikningar varðandi hagvöxt á árinu 2012, sem reyndar eru ekki endanlegir heldur bráðabirgðaútreikningar, benda til þess að hagvöxtur hafi verið næstum því helmingi minni en spáð hafði verið. Næstum því helmingi minni en gert var ráð fyrir í öllum opinberum spám á síðasta ári. Þetta er töluvert alvarlegt.

Það er líka alvarlegt sem fram kemur að fjárfesting er enn þá í sögulegu lágmarki. Fjárfesting hreyfist varla í landinu. Það leiðir hugann að því hvernig menn ætla að fara að því að standa undir öllum þeim loforðum sem gefin eru fyrir þessar kosningar. Hvernig ætla menn að standa undir útgjaldaloforðum, hvort sem er á sviði samgöngumála, velferðarmála eða menntamála? (Gripið fram í.) Hvernig ætla menn að standa undir því? (Gripið fram í.) Hvernig ætla menn að standa undir loforðum sem gefin eru ef menn hafa ekki neitt fram að færa um það hvernig hægt er að efla atvinnulífið í landinu, ef menn leggjast gegn öllum breytingum sem eru til þess fallnar að styrkja atvinnulífið í landinu, örva fjárfestingu, örva hagvöxt? Ef menn leggjast gegn öllu slíku, hvernig ætla menn að borga reikningana?

Það er auðvitað samhengi þarna á milli. Við verðum að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Við verðum að auka útflutning, við verðum að auka hagvöxt. Annars getum við ekki gert alla þá góðu hluti sem við viljum gera. Þess vegna er grundvallarviðfangsefnið okkar þingmanna og ætti að vera í aðdraganda kosninga að leggja á borðið tillögur um það hvernig við getum komið atvinnulífinu aftur af stað, (Gripið fram í: Rétt.) hvernig við getum komist upp úr þeirri stöðnun sem við búum nú við, (Forseti hringir.) hvernig við getum tryggt að til verði fjármagn sem hægt er að nota til allra þeirra góðu hluta sem við viljum gera. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)