141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruminjasýning í Perlunni.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var sem betur fer svo í fjárlögunum fyrir þetta ár að við gátum sett töluverða fjármuni til viðbótar í heilbrigðiskerfið. Töluverðir fjármunir voru settir til tækjakaupa bæði á sjúkrahúsinu fyrir norðan og á höfuðborgarsvæðinu, á Landspítalanum þannig að þetta er ekki alveg sanngjörn umræða hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður veit jafn vel og ég að við þurfum líka að ýta undir vöxt í samfélaginu. Eitt af því er að setja upp svona náttúruminjasýningu vegna þess að hún mun verða aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem eru að verða mjög stór tekjulind fyrir okkur Íslendinga, undirstöðuatvinnugrein. Ísland sem sækir ferðamenn hingað á grundvelli náttúruperlna á að eiga myndarlegt náttúruminjasafn.

Hvað varðar tölurnar er þetta svona: 185 millj. kr. í rekstrarkostnað brúttó, það er rétt. (Gripið fram í.) 50–100 millj. er varlega áætluð tekjuáætlun og í henni er bara gert ráð fyrir því að um þriðjungur þeirra sem nú í dag heimsækja Perluna komi á sýninguna, bara þriðjungur. Það er eðlilegt að leggja af stað með varlega áætlun. Það sem ég nefndi áðan eru væntingar mínar til þessa verkefnis, að það eigi eftir að geta skilað okkur tekjum.