141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og vil rétt í upphafi hrósa hv. þingmanni fyrir formennsku í nefndinni. Ég held að hv. þingmaður hafi haldið vel á þessu máli þrátt fyrir að um málið séu skiptar skoðanir.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í eitt atriði í mínu fyrra andsvari og snýr það að skilgreiningu á hugtakinu „ræktuðu landi“ sem vissulega var þannig þegar það kom inn til nefndarinnar. „Ræktað land“ var í rauninni þannig skilgreint í frumvarpinu að stór hluti af túnum bænda var orðinn „óræktað land“. Þegar forustumenn bænda komu fyrir nefndina kom meðal annars fram hjá þeim mikil gagnrýni á að ekki hefði verið samráð um þetta til að koma í veg fyrir þetta.

Það sem mig langar að velta upp við hv. þingmann er sú skilgreining sem þarna kemur fram. Telur hann nægilega langt gengið? Tökum dæmi af landi sem er nytjað til beitar með þungri beit, kannski hrossum eða nautgripum. Þá get ég ekki annað skilið en að það sé enn óræktað land samkvæmt þessari skilgreiningu (Forseti hringir.) og lúti þar af leiðandi þeim lögmálum þegar kemur að tjöldun, dvöl og umferð um slík lönd. Getur hv. þingmaður komið aðeins inn á þetta?