141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á. Ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni að þegar lögunum um þessa skóla var breytt og þeir gerðir að háskólum fylgdu því auðvitað miklar kvaðir en ekki það fjármagn sem þurfti, það blasti við. Það kallaði á aukna fjárveitingu að gera þessar breytingar á sínum tíma og búið er að viðurkenna að þeir fjármunir hafa ekki skilað sér til viðkomandi stofnana. Þess vegna set ég fleiri spurningarmerki við það þegar fram kemur í umsögninni að ekki liggi fyrir áætlun af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á þessu stigi en að gera verði ráð fyrir því að þau framlög rúmist innan útgjaldaramma. Þá spyr maður: Er virkilega verið að fara enn lengra inn á þá braut að gera ákveðnar kröfur, setja ákveðnar skyldur á viðkomandi stofnanir eins og landbúnaðarháskólana og síðan á ekki að fylgja það fjármagn sem nauðsynlegt er ef stofnanirnar eiga að geta staðið undir þeim kröfum?

Síðan er mjög mikilvægt að það sé algjörlega á hreinu, því að það er mikilvægast af öllu, að allar stofnanir haldi fjárlög. Það er sannarlega mitt prinsipp og vonandi allra, en þá verður það að vera alveg á hreinu hvernig þeim hlutum er háttað, þ.e. þeim verkefnum sem viðkomandi skólum er skylt að sinna samkvæmt lögunum. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan hefur það verið viðurkennt af menntamálaráðuneytinu að breytingunum hafi ekki fylgt nægjanlegt fjármagn þannig að stofnanirnar gætu staðið undir kröfunum. Þess vegna megum við ekki halda áfram lengra inn á þá braut öðruvísi (Forseti hringir.) en að viðurkenningin komi fram.