141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði var ég í meginatriðum sáttur við frumvarpið eftir að hafa lesið nefndarálitið — ég á ekki sæti í viðkomandi nefnd — þar sem er farið mjög fögrum orðum um búnaðarfræðsluna og mikilvægi þess að þeirri starfsemi sé haldið áfram innan skólanna. Lögð er áhersla á samstarf við atvinnulífið og þá væntanlega við bændastéttina þegar kemur að uppbyggingu námsins.

Ég hef ekki forsendur til að ætla að stjórnendur viðkomandi skóla muni afleggja þá fræðslu eða minnka hana. Ég held að það sé metnaður hjá stjórnendum þeirra stofnana að halda henni áfram þannig að ég geng einfaldlega út frá því eftir að hafa lesið nefndarálitið að mönnum gangi gott eitt til með frumvarpinu. Ég vil spyrja hv. þingmann á móti hvort hann sé mér ekki sammála um að mönnum sé treystandi til að tryggja að þeirri starfsemi sé haldið áfram í ljósi þess að stjórnendur skólanna hljóta að hafa mikla þekkingu á þörfum fyrir búnaðarfræðslu o.fl. hvað þau mál áhrærir. Sér hv. þingmaður mikla hættu í því að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir?