141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mér finnst ótrúlega furðulegt að hér hafi ekki verið haldinn þingflokksformannafundur áður en þessi dagskrá kom í pósti til þingmanna í gærkvöldi. Ég veit ekki betur en að á síðasta fundi sem ég átti með forseta og formönnum flokkanna að forseti hafi sagt skýrt og skilmerkilega að hún mundi ekki setja á fund fyrr en búið væri að ná samkomulagi. Því óska ég eftir að haldinn verði fundur þingflokksformanna þar sem við fáum að heyra um þetta samkomulag, því eitthvert samkomulag hlýtur að hafa verið gert fyrst við erum hér með dagskrá með 41 máli. Ég óska eftir að fundi verði frestað nú þegar þannig að við getum farið yfir þessi mál í sameiningu. Ég óska eftir svari.