141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er sérkennilegt ef hv. formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru hissa á þeim mikla fjölda mála sem liggur óafgreiddur fyrir þessu þingi. (Gripið fram í.) Þetta eru sömu menn sem hafa sett hér upp hverja stífluna á fætur annarri og hertekið hvert málið á fætur öðru (Gripið fram í.) til að koma í veg fyrir að þingmenn og þingið skiluðu sinni vinnu.

Þetta er langur listi, það er rétt. Þessi listi hefur legið fyrir hjá þessum hv. þingmönnum í tíu daga, þeir hafa ekki verið tilbúnir til að ræða hann, þeir vilja ræða eitthvað allt annað. Hér í þingsal hafa þeir aðallega rætt um opinbera háskóla, núna í sex og hálfan klukkutíma í framhaldi 2. umr. og umræðunni er langt í frá lokið. Þetta er mál sem var tilbúið löngu fyrir jól til að afgreiða í þessum sal en þá settu menn upp stoppmerkið og gera það aftur núna. Það er eðlilegt að þjóðin fái að sjá hvaða mál það eru sem (Forseti hringir.) þessir flokkar eru að stoppa. Það er nauðsynlegt og það er eðlilegt.