141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að yfirleitt er fundarstjórn forseta nokkuð óaðfinnanleg. Ég ætla þó að gera athugasemdir við þá dagskrá sem hér liggur fyrir upp á 41 mál. Það hefur líka verið rætt um að hér eigi að koma á dagskrá þingmannamál sem ekki hafa sést og ríkisstjórnin hefur lagt fram allt að tíu fyrstuumræðumál sem hún segist líka vilja leggja áherslu á að koma hérna í gegn.

Frú forseti. Umræðan núna um fundarstjórn forseta er lýsing á þeirri umræðu sem verður út alla þessa viku. Starfsáætluninni er lokið. Við hvaða veruleikafirringu búa þingmenn og hæstv. ráðherrar þegar þeir koma hér með útúrsnúninga og spuna um kosningastefnuskrár flokka? Á þetta að fara að snúast um það? Ætlum við ekki að reyna að klára eitthvað af einhverjum skynsamlegum málum? Hér er ekkert mál um skuldamál heimilanna, ekki neitt. (Utanrrh.: Ég setti …) Það eru tvö mál um atvinnumál og þau eru mjög aftarlega á dagskránni. Þetta er til háborinnar skammar (Forseti hringir.) og það gengur ekki að við komum hingað upp og látum eins og ég veit ekki hvað í ræðustól (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að setjast yfir þau mál sem skynsamlegust eru, klára þau og hætta svona kjánagangi. [Kliður í þingsal.]