141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að nefndin hafi fengið margar ábendingar, athugasemdir og gagnrýni. Það sem nefndin á þá að gera er að fara í gegnum þær athugasemdir og þá gagnrýni og vísa henni frá með rökum eða taka hana inn í sína breytingartillögu. Hún gerði það ekki með tillögur mínar. Hún vísaði ekki frá með rökum þeirri hugmynd minni að Lögrétta yrði fullskipaður Hæstiréttur og hefði miklu víðtækara svið en sú Lögrétta, þessi fimm manna nefnd, sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom fram með. Það er afskaplega fátækleg Lögrétta og eiginlega ekki neitt neitt. Hún er meira að segja tilnefnd af Alþingi sjálfu og á að fjalla um hvort lög frá Alþingi séu í lagi. Verkefni hennar er því mjög fátæklegt. Ég vildi víkka hana þannig út að ef borgarar landsins hefðu til dæmis athugasemdir við að viss lög stæðust ekki stjórnarskrá, þá mundi fullskipaður Hæstiréttur sem Lögrétta taka á því. En það er ekki, það vantar. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum menn settu það ekki inn. Hvaða rök eru fyrir því að setja það ekki inn?

Svo náttúrlega meginpunkturinn, herra forseti, að þjóðin mundi aldrei greiða atkvæði um stjórnarskrá sína með þeirri tillögu sem liggur fyrir. Aldrei. Vegna þess að það er næsta Alþingi sem tekur ákvörðun um hvort stjórnarskráin gildi. Ég lagði fram tillögu og fjöldamargir aðrir þingmenn um að þessu yrði breytt þannig að fyrst mundum við breyta 79. gr., eins og formenn stjórnmálaflokkanna eru nú búnir að taka upp eftir mér, mér þykir það fínt, þó að þeir séu að eigna sér hugmyndina, það er þeirra mál, en ég vil að þjóðin greiði bindandi atkvæði um stjórnarskrána. Það gerir hún ekki með þessari stjórnarskrá sem meinbugir eru á.