141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

búfjárhald.

282. mál
[22:28]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Sem framsögumaður atvinnuveganefndar kynni ég nefndarálit um frumvarp til laga um búfjárhald. Þetta mál er nátengt máli sem kemur hér á eftir og varðar velferð dýra.

Á fund nefndarinnar komu auk ráðuneytisins, Samtök íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi sýslumannsins í Borgarnesi, Bændasamtök Íslands, Landgræðslan, Skógrækt ríkisins, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Matvælastofnun, ríkissaksóknari og nokkrir einstaklingar, meðal annars aðstandendur kvikmyndarinnar Fjallkonan hrópar á vægð . Þá bárust umsagnir frá þó nokkrum einstaklingum og auk þess frá Hagstofu Íslands, Bændasamtökunum, Landgræðslunni, Skógræktinni, Svínaræktarfélagi Íslands, sýslumanni í Borgarnesi og áðurnefndum félögum sem ég taldi hér upp áðan og nokkrum sveitarfélögum líka.

Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um búfjárhald sem leysi af hólmi lög um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002. Segja má að frumvarpið sé hliðarafurð vegna endurskoðunar dýraverndarlaga. Af lestri almennra athugasemda frumvarpsins má sjá að því er ætlað að endurspegla þá breytingu sem lögð er til í frumvarpi til laga um dýravelferð að eftirlit með velferð dýra verði fært til Matvælastofnunar og umfang búfjáreftirlits takmarkað við upplýsingaöflun um fjölda búfjár auk eftirlits með merkingum. En búfjáreftirlit hefur sennilega verið hjá sveitarfélögunum í ein ellefu hundruð ár.

Um frumvarpið er almennt óhætt að fullyrða að flestir hafi fagnað framkomu þess og eins og fram hefur komið kallast efni þess á við efni frumvarps til laga um velferð dýra. Frumvarpinu er ætlað að ná til vörslu og merkingar búfjár og öflun hagtalna.

Skilningur nefndarinnar er að gera megi ráð fyrir að frumvarpið innihaldi sérákvæði gagnvart almennum ákvæðum frumvarps til laga um dýravelferð. Af þeim sökum má leiða líkur að því að forgangsreglan, þ.e. að ákvæði sérlaga gangi framar ákvæðum almennra laga, muni hafa í för með sér að ákvæði frumvarpsins gangi framar ákvæðum frumvarps til laga um dýravelferð að því marki sem þau rekast á.

Nefndin tók nokkur atriði og sjónarmið til sérstakrar skoðunar og er í nefndaráliti fjallað um þau í sérstökum köflum og ætla ég að hlaupa á því helsta á þeim tíma sem ég hef hér til framsögu málsins.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er verkaskipting frumvarpsins gagnrýnd og látin í ljós sú skoðun að það samræmist ekki nútímaviðhorfum að setja öflun hagtalna í hendur ríkisstofnunar en fella skyldu til viðbragða, vegna einstakra mála sem upp kunni að koma, á sveitarfélögin. Skilningur nefndarinnar er að gagnrýninni sé í raun beint að verkaskiptingu sem kemur fram í frumvarpinu og einnig frumvarpi til laga um dýravelferð. Samtök sveitarfélaga gera athugasemdir við það að ný skrifstofustörf, sem verði komið á fót hjá Matvælastofnun, verði að einhverju leyti fjármögnuð af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í því ljósi gagnrýnir sambandið það að með frumvarpinu sé sveitarfélögunum gert að kosta hin nýju störf á sama tíma og auknar skyldur eru lagðar á sveitarfélögin í formi hjálparskyldu og vörslu- og handsömunarskyldu.

Skilningur nefndarinnar var sá að sveitarfélögin hefðu talið að verkefni á sviði búfjáreftirlits og forðagæslu ættu frekar heima í höndum ríkisvaldsins vegna eðlis verkefna þeirra og þess hve flókin og kostnaðarsöm mál geta komið upp á téðum sviðum; og það væru þá einfaldari skipti á milli ábyrgðar varðandi þessi mál.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að það hafi varað eindregið við þeirri verkaskiptingu sem fram kemur í frumvarpinu þar sem hún sé bæði óljós og vinni gegn því markmiði að skýra stjórnsýsluna í málaflokki búfjárhalds og dýraeftirlits. Upplýsir sambandið að það hafi lagt til að öll ábyrgð á viðbrögðum verði á einni hendi, þ.e. hjá Matvælastofnun, en henni verði með lögum heimilað að semja við sveitarfélögin eða aðra aðila um einstaka framkvæmdaþætti gegn greiðslu. Skilningur nefndarinnar er sá að sveitarfélögunum beri að sinna verkefnum þar sem ákvarðanataka geti hvað best tekið mið af staðbundnum aðstæðum. Hefur þannig verið talið að yfirsýn sveitarfélaganna yfir málefni íbúa auki möguleika á því að komast að réttri og hallkvæmri niðurstöðu í hverju tilviki, þ.e. nefndin taldi að enginn annar væri betur til þessa verkefnis fallinn en sveitarfélögin.

Að mati nefndarinnar er gagnrýni sveitarfélaganna mjög skiljanleg hvað það varðar að þessu ábyrgðarsviði sé skipt og kostnaðurinn skilinn eftir hjá sveitarfélögunum en eins og áður hefur komið fram var rík áhersla lögð á að afgreiða frumvarpið á yfirstandandi löggjafarþingi og að atvinnuveganefnd hafi hvorki tök á að jafna þann ágreining sem fjallað hefur verið hér um að framan né gera svo róttækar breytingar á frumvarpinu sem sambandið lagði til í viðbótarumsögn sem það sendi inn. Í því skyni að veita aðilum aukin tækifæri til þess að jafna ágreining sinn og grandskoða frumvarpið leggur nefndin hins vegar til að gildistöku frumvarpsins verði frestað til 1. janúar 2014 og hvetur nefndin sveitarfélögin og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að nota tímann þangað til vel. Þetta leysir auðvitað ákveðinn vanda varðandi fjárlagagerð bæði ríkisvalds og sveitarfélaga og vil ég hvetja aðila til að finna farveg til að leysa þann ágreining sem uppi er.

Varðandi búfé og gildissvið frumvarpsins teljast, samkvæmt 2. mgr. 2. gr., alifuglar, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripir, sauðfé og svín til búfjár samkvæmt frumvarpinu en þar að auki er Matvælastofnun falið að skera úr ágreiningi um hvort dýr teljist til búfjár. Um þetta var nokkuð fjallað, meðal annars vegna athugasemda frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur varðandi kanínur og hænur og auðvitað getur komið til að önnur dýr séu haldin sem gæludýr; mörk á milli búfjár og gæludýra geta verið lítil eða á gráu svæði og þá var það mat nefndarinnar að ekki þyrfti að taka á þessu þar sem Matvælastofnun væri hvort eð er með það verkefni að skera úr ágreiningi.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um takmörkun búfjárhalds og kveðið á um heimildir sveitarstjórna til að setja samþykkt um búfjárhald. Meðal annars má í slíkri samþykkt ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað á tilteknum svæðum eins og við þekkjum. Þá var einnig fjallað um að búfjáreigandi sem verður fyrir atvinnutjóni vegna þessa banns eða takmarkana eigi rétt á bótum og skuli greiða bætur úr sveitarsjóði.

Skógrækt ríkisins gerði meðal annars athugasemd við þetta en að mati nefndarinnar felur ákvæðið í sér áréttingu á tilteknu réttarástandi sem leiða má af ákvæðum 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar og í ljósi þess telur nefndin tilvist bótareglunnar eðlilega.

Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um vörslu búfjár og kveðið á um heimild sveitarstjórna til að ákveða að umráðamönnum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Varðandi þetta atriði varð talsverð umræða um vörslu búfjár og að mati nefndarinnar er umræðan um vörsluskyldu búfjár þörf og til marks um breytta tíma og breyttar áherslur í þjóðfélaginu. Þó svo að margar góðar hugmyndir og ábendingar hafi komið fram í umsögnum og á fundum nefndarinnar telur nefndin ekki mögulegt að ljúka henni og útfæra á þeim grundvelli vörsluskylduákvæðis sem teldist fullnægjandi. Af þeim sökum leggur nefndin ekki til neinar breytingar á ríkjandi réttarástandi en skorar á almenning og stjórnvöld að halda umræðunni áfram og gera þannig mögulegt að þokast nær fullnægjandi framtíðarlausn.

Á fundum nefndarinnar og í umsögn Æðarræktarfélags Íslands um 283. mál, þ.e. velferð dýra — en þar kom fram að Æðarræktarfélagið taldi eðlilegt að herða á kröfum til loðdýrabúa til að tryggja að dýr sleppi ekki þaðan út — var það mat nefndarinnar að það væri verulega mikilvægt að loðdýrabændur gæti að sér og tryggi ávallt að loðdýr séu í tryggum vörslum. Slíkt á sérstaklega við í tilviki minkaeldis. Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að nýtt ákvæði bætist við frumvarpið, er verði 7. gr., þar sem skýrt verði kveðið á um að loðdýrum skuli ávallt haldið í tryggri vörslu. Þá er lagt til að ráðherra verði heimilað að kveða nánar á um vörslukröfu loðdýra með reglugerð, og ákvæði er snerta þessa reglugerðarsetningu er meðal annars sótt í reglugerð um aðbúnað og meðferð minka og refa, nr. 165/2007.

Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins um friðuð svæði er lagt til að umráðamanni lands verði heimilað að ákveða að tiltekið og afmarkað landsvæði sé friðað svæði og þá sé umgangur og beit búfjár bönnuð á svæðinu.

Töluverðar athugasemdir voru gerðar í umsögnum og á fundum nefndarinnar við að með ákvæðinu væri gert ráð fyrir því að leggja umtalsverðar skyldur á umráðamann hins friðaða lands á meðan umráðamanni búfjár væri aðeins gert að sækja búféð. 8. gr. fjallar einnig um hvernig bregðast skuli við ef búfé kemst inn á hið friðaða svæði.

Í ljósi þeirrar meginreglu að lausaganga búfjár sé heimil nema hún verði bönnuð samkvæmt ákvörðun sveitarfélags telur nefndin eðlilegt og standi eigendum friðaðra svæða nær að halda búfé af landi sínu og bendir reyndar á að í tillögum hennar um breytingar á 13. gr., sem ég kem að á eftir, er lagt til að heimilt verði að ákæra og refsa þeim sem stuðli að því að búfé gangi um og sé á beit gegn banni við umgangi og beit búfjár á friðuðum svæðum.

Í 1.–3. mgr. 9. gr. frumvarpsins, þar sem meðal annars er fjallað um haustskýrslu umráðamanna búfjár, er lagt til að umráðamönnum búfjár verði gert að skila Matvælastofnun svokallaðri haustskýrslu. Gert er ráð fyrir að slík upplýsingasöfnun verði gerð með rafrænum hætti, meðal annars í gagnagrunninn Bústofn. Þar skuli koma fram upplýsingar um fjölda ásetts búfjár, um búfé í hagagöngu og á hvaða jörð eða landspildu það er; um gróffóðurforða og annað.

Nefndinni bárust nokkrar tæknilegar athugasemdir við frumvarpsgreinina og ætla ég að hlaupa aðeins á þeim.

Varðandi innihald haustskýrslna var lagt til í umsögn Matvælastofnunar að landstærðir nytjalands skuli færðar í hana, þ.e. að umráðamönnum búfjár verði einnig skylt að færa í skýrsluna upplýsingar um landstærðir á jörðum sínum og landspildum. Hér er um að ræða upplýsingar sem Hagstofan safnar frá aðilum sem stunda búfjárhald og hið samræmda heiti, nytjaland, tekur sem sagt tillit til þess. Í umsögn Hagstofu Íslands og Svínaræktarfélags Íslands er efnislega tekið undir með Matvælastofnun. Þá er einnig í umsögn Matvælastofnunar lagt til að skilgreiningu í 5. tölulið 3. gr. verði þannig breytt að hagtölur verði einnig látnar ná til upplýsinga um landstærðir.

Nefndin fellst á framangreind rök og gerir tillögu til breytingar á 3. og 9. gr. frumvarpsins. Þannig muni skilgreining hagtalna í 5. tölulið 3. gr. frumvarpsins ná til landstærða nytjalands og 2. mgr. 9. gr. verði látin endurspegla þá breytingu. Að auki verði gerð tæknileg orðalagsbreyting, þ.e. kveðið verði á um skyldu til að veita upplýsingar um gróffóðuruppskeru af túnum í stað gróffóðurbirgða.

Annað atriði varðar aðgang að haustskýrslum. Í 6. mgr. 9. gr. frumvarpsins er lagt til að Matvælastofnun og Hagstofu Íslands verði heimilað að nota upplýsingar úr haustskýrslum samkvæmt 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar en öðrum opinberum aðilum verði heimilað að nota slíkar upplýsingar að fengnu leyfi Matvælastofnunar.

Í umsögn Bændasamtaka Íslands er farið fram á að samtökunum verði tryggð heimild til að nota upplýsingar úr haustskýrslunum og er meðal annars vísað til víðtæks leiðbeiningarhlutverks við landbúnað og mikilvægis upplýsinganna við það verkefni.

Atvinnuveganefnd fellst á að rétt sé að veita leiðbeiningarþjónustu sem starfrækt er fyrir tilstuðlan Bændasamtaka Íslands aðgang að upplýsingum úr haustskýrslum gegn samþykki Matvælastofnunar. Nefndin leggur því til breytingu á 11. gr. frumvarpsins, þannig að leiðbeiningarmiðstöð samkvæmt 4. tölulið 1. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, með síðari breytingum, verði heimill aðgangur að upplýsingum gegn samþykki Matvælastofnunar eins og opinberum aðilum.

Í 4. og 5. mgr. 9. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um eftirlit Matvælastofnunar, er lagt til að Matvælastofnun verði gert skylt að fara og skoða hjá umráðamönnum búfjár sem ekki skila inn fullnægjandi gögnum auk þess sem stofnuninni er heimilað að fara árlega í skoðun til allra umráðamanna búfjár til að sannreyna upplýsingagjöf samkvæmt 2. mgr.

Í umsögn Bændasamtakanna var lögð mikil áhersla á að það yrði upplýst með hvaða hætti eftirlitið yrði. Athugasemdina settu samtökin fram í ljósi þess að þau telja varhugavert að leggja af reglubundna árlega skoðun.

Að mati nefndarinnar hefur umfjöllun um fyrirkomulag og skyldur Matvælastofnunar vegna eftirlits samkvæmt 9. gr. frumvarpsins sterk tengsl við umræður um eftirlit stofnunarinnar samkvæmt 12. gr. frumvarps til laga um velferð dýra og vísar nefndin til umfjöllunar um slíkt í nefndaráliti um það frumvarp, sjá þskj. 1216 í 283. máli.

Varðandi upplýsingaöflun og aðgang að gripahúsum/beitilöndum, sem var talsvert álitamál sem nefndin fjallaði um kemur fram í umsögn Bændasamtakanna að samtökunum sé ekki kunnugt um dæmi þess að það úrræði 15. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald, hafi ekki reynst fullnægjandi. Í því ljósi draga þau í efa að þörf sé á nýjum þvingunarúrræðum í 11. gr. frumvarpsins.

Í umsögn embættis sýslumannsins í Borgarnesi eru gerðar athugasemdir við að hvergi sé skilgreint hvað felast eigi í aðstoð lögreglustjóra samkvæmt 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að skilgreina hvert hlutverk lögreglunnar sé, meðal annars sé vegið að sjálfstæði lögreglunnar með því að ætla henni að bregðast við fyrirskipunum annarra en handhafa ákæruvalds. Skilningur nefndarinnar er að ákvarðanir um húsleit verði ávallt að byggjast á málefnalegum forsendum að meðalhófi gættu. Friðhelgi einkalífs og heimilis nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrár.

Í ljósi þess að tilgangur heimildar 11. gr. frumvarpsins er að tryggja að nauðsynleg upplýsingaöflun vegna öflunar hagtalna tók nefndin til sérstakrar skoðunar hvort það væri viðeigandi að lagt væri til í frumvarpsgreininni að heimila Matvælastofnun að framkvæma húsleit samkvæmt dómsúrskurði. Að mati nefndarinnar er gagnrýni fulltrúa sýslumannsins í Borgarnesi réttmæt. Undir hana tekur ríkissaksóknari. Í skýringum frumvarpsins er enga leiðbeiningu að finna um hver aðstoð lögreglu á að vera.

Í ljósi þessa leggur nefndin til breytingar á 11. og 13. gr. frumvarpsins. Þannig leggur nefndin til að skýrt verði tekið fram í 11. gr. frumvarpsins að Matvælastofnun sé heimill aðgangur að gripahúsum og/eða beitilöndum í þágu upplýsingaöflunar og ef umráðamaður búfjár meinar henni um aðganginn skuli það tilkynnt til lögreglu. Ég kem síðar að því er varðar 13. gr.

Ég ætla síðan að fjalla aðeins um heimild Matvælastofnunar til að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði, sem einnig var talsvert álitamál sem nefndin fjallaði um. Í 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins er lagt til að Matvælastofnun verði heimilað að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði í þeim tilvikum þegar stofnuninni er meinaður aðgangur til talningar búfjár og fjöldi gripa liggur til grundvallar ákvörðun greiðslna. Eins og ég nefndi áðan var þess getið í umsögn Bændasamtakanna að þeim sé ekki kunnugt um að það úrræði sem nú er hafi ekki reynst fullnægjandi.

Við umfjöllun nefndarinnar var það álit nefndarinnar að úrræðið sem væri í 2. mgr. 11. gr. mætti vera skýrara. Í því ljósi leggur nefndin til þá breytingu á 2. mgr. 11. gr. að þar verði kveðið á um að umráðamönnum búfjár, sem njóta opinberra greiðslna í landbúnaði þar sem fjöldi gripa er grundvöllur greiðslu, sé skylt að veita Matvælastofnun atbeina við að staðreyna fjölda gripa með talningu, meðal annars með því að heimila starfsmönnum stofnunarinnar aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum. Er sérstaklega tekið fram að sinni umráðamaður ekki skyldunni sé Matvælastofnun heimilt að fella niður þær opinberu greiðslur sem grundvallast á talningunni þar til atbeininn hefur verið veittur. Mat nefndarinnar er að þessi útgáfa úrræðisins sé skýrari og markvissari en sú útgáfa sem fram kemur í frumvarpinu auk þess sem nefndin telur að með henni sé tryggt að ekki sé of langt gengið.

Þá ætla ég að fjalla hér um kröfur um almennt bann við lausagöngu búfjár. Talsvert var gagnrýnt í umsögnum og máli gesta á fundum nefndarinnar að í frumvarpinu væri ekki að finna ákvæði um almennt bann við lausagöngu búfjár. Gagnrýnendur vildu ganga mislangt í að framfylgja lausagöngubanni og mörg áhugaverð sjónarmið komu fram fyrir nefndina. Mat nefndarinnar er að þrátt fyrir þá vitundarvakningu og ef til vill hugarfarsbreytingu sem hefur átt sér stað gagnvart beitarmöguleikum búfjáreigenda sé ekki unnt að gera svo róttæka breytingu að leggja almennt bann við lausagöngu búfjár. Beitarréttindi njóta oft á tíðum tiltekinnar verndar. Að auki hafa áhrif slíks banns ekki verið metin heildstætt og liggja því í raun og veru ekki fyrir. Ekkert virðist þó koma í veg fyrir að haldið verði áfram að skoða og ræða lausagöngu búfjár.

Sá sem hér stendur vill vekja athygli á því að það nefndarálit sem hér liggur fyrir var prentað upp vegna breytingar sem gerð var á þessum kafla en þar komu meðal annars fram athugasemdir frá Bændasamtökunum um að í umræðu um lausagöngubann hefði gætt ójafnræðis. Bændasamtökin bentu á að í því nefndaráliti sem var uppkast og var sent út um tíma hefðu komið fram sjónarmið um að Bændasamtökin hefðu ekki sinnt umræðuskyldu sinni á þessu sviði og upplýsingagjöf, en Bændasamtökin bentu á að þau hefðu sannarlega gert það og hefðu meðal annars reynt að koma á framfæri við Ríkisútvarpið mynd sem sýndi aðra mynd af beit og búfjárhaldi sauðfjár en Ríkisútvarpið hefði hafnað því að sýna hana þrátt fyrir að það hefði sýnt kvikmyndina Fjallkonan hrópar á vægð á besta útsendingartíma.

Í 13. gr. frumvarpsins um viðurlög er að finna almennt viðurlagaákvæði þar sem lagt er til að brot gegn ákvæðum frumvarpsins eða reglugerðum og samþykktum sem settar verða samkvæmt því varði sektum. Í umsögn ríkissaksóknara kemur fram að embættið telji ákvæði frumvarpsgreinarinnar almennt orðað þar sem þar sé ekki tilgreint nákvæmlega hvaða háttsemi er refsiverð og sú meginafmörkun sem ætlast sé til að gildi um skilgreiningu á refsiverðri háttsemi sem kann að vera kveðið nánar á um í stjórnvaldsfyrirmælum. Þá gagnrýnir embættið að saknæmisskilyrði séu ekki skilgreind, þ.e. ásetningur og gáleysi, og ekki sé kveðið á um hvort tilraun eða hlutdeild að brotum skuli refsiverð.

Nefndin telur athugasemdir ríkissaksóknara eiga fullan rétt á sér. Af þeim sökum leggur nefndin til róttæka breytingu á 13. gr. frumvarpsins. Í tillögunni felst að sérstaklega eru tilgreindar verknaðarlýsingar þeirra brota sem heimilt verður að refsa fyrir á grundvelli frumvarpsins. Þá leggur nefndin til þá breytingu að heimilt verði að refsa lögaðilum fyrir brot gegn ákvæðum frumvarpsins. Að lokum er lagt til að heimilt verði að refsa fyrir tilraun og hlutdeild í brotum.

Björn Valur Gíslason, Ólína Þorvarðardóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir álitið rita hv. þingmenn Kristján L. Möller formaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, og Sigurður Ingi Jóhannsson, sá sem hér stendur, framsögumaður, með fyrirvara.

Ég ætla að geta fyrirvarans hér á eftir en kynna til sögunnar þskj. 1231, mál 282, sem eru þær breytingartillögur sem ég hef farið yfir um leið og ég kynnti nefndarálitið þannig að ég ætla ekki að fara yfir það að nýju.

Þrír hv. þingmenn, auk þess sem hér stendur hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, gera almennan fyrirvara. Hann snýr að því að við teljum að þetta sé umfangsmikið mál sem búið hefði verið að vinna mjög vel og hefði verið hægt að klára með góðri fullvissu um að við værum búin að vinna það mál mjög vel. En á ákveðnum tímapunkti var þessu máli ýtt til hliðar, það var fyrir jól sem þetta var komið á það stig — sá sem hér stendur benti reyndar ítrekað á að þvingunar- og refsiaðgerðir gengju of langt og sérstaklega refsisviðið, ekki væri því um að kenna að mál hefðu ekki gengið rétt fram í dómsölum að dómstólar hefðu ekki skilning á brotum er varða dýravelferð eða búfjárhald, heldur væri skortur á skýrleika refsiákvæða, og vegna þess að nefndin notaði fullmikinn tíma í febrúar og janúar í önnur mál, sem kannski munu ekki koma hér til lokaafgreiðslu, var þessi vinna unnin á miklum hraða undir lokin.

Ég vil þakka öllum nefndarmönnum fyrir gott samstarf og nefndarritara fyrir frábært starf. En vegna þess að þessi mál voru unnin nokkuð hratt á síðustu metrunum settum við, þessir þrír þingmenn, þann fyrirvara við að ekki gafst tími til að senda málið út til umsagnar að nýju eftir þessar umfangsmiklu breytingar á þvingunarúrræðunum og refsiákvæðunum. En í trausti þess að þar hafi fagmenn verið að verki erum við tilbúnir að leggja þetta mál fram og leggja það til að það verði samþykkt. Með þeim orðum lýk ég máli mínu, frú forseti.