141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri við upphaf dagskrár að vekja athygli hæstv. forseta á því að í umræðunum áðan kom fram mikill áhugi hjá þingmönnum á því að ræða mál nr. 19 og 20 á dagskránni í dag, varðandi kísilver í landi Bakka og uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka. Þetta eru mál sem atvinnuveganefnd hefur lokið og eftir því sem ég best veit var allgóð samstaða um þessi mál þar. Það er hins vegar ljóst að í þingsalnum eru mjög skiptar skoðanir um þau. Þetta tengist auðvitað máli sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og fleiri hafa vakið máls á varðandi ívilnanir vegna Helguvíkur og ég held að þarna sé um að ræða mál sem áríðandi er að þingið taki afstöðu til, áríðandi er að fá fram þingviljann.

Eins og hæstv. forseti veit fagna ég hverju tækifæri sem ég fæ til að tala um málefni stjórnarskrárinnar. En ég held hins vegar að brýnna sé að fá fram afstöðu þingsins til þessarar mikilvægu atvinnuuppbyggingar, bæði norður í Þingeyjarsýslu og eins suður með sjó. Ég mæli þess vegna með því að þessi mál verði flutt framar í dagskrána þannig að þingmönnum gefist kostur á að reifa ólíkar skoðanir um þessi efni.