141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:41]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig rekur nú minni til þess þegar ákveðið var hér í þingsal að hætta við samninginn við Alcoa að þá var nú klappað fyrir því í þingsalnum af nokkrum hv. þingmönnum, og þeir voru ekki úr Sjálfstæðisflokknum.

Það er alveg rétt að segja má að hér sé um að ræða kalt svæði sem þarfnist atvinnuuppbyggingar. En ég ætla að leyfa mér að fullyrða að eftir stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar er allt Ísland orðið kalt svæði. (BVG: En styðurðu málið?) Og það stendur þannig nú, virðulegi forseti, að fjárfestingar atvinnulífsins, fjárfestingar atvinnuveganna eru jafnvel að dragast saman á þessu ári og úr næstum því engu. (BVG: Styðjið þið málið?) Það skiptir því gríðarlega miklu máli að koma af stað atvinnuuppbyggingu sem víðast. Ég ætla enn og aftur að segja, af því að ég læt ekki taka mig hér upp af hv. þm. Birni Val Gíslasyni um það hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði, að það mun koma mjög skýrt í ljós.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum hvað eftir annað komið upp í pontu og rakið þann vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur meira og minna staðið í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á öllum sviðum. (BVG: Styðurðu þá málið?)

Það mun koma í ljós, hæstv. forseti, hver afstaða mín í málinu er. En það get ég sagt að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum barist fyrir því að ráðist yrði í atvinnuuppbyggingu á Bakka. Það má lesa í þá staðreynd að við skulum hafa flutt dagskrártillögu um að koma þessu máli fyrr á dagskrá vegna þess að það lá fyrir að mjög vantaði upp á viljann í stjórnarliðinu að ýta málinu fram, því var frekar haldið aftur. Það kom fram á fundum í þinginu þar sem verið var að véla um dagskrá þingsins að mjög erfitt var að ýta því máli fram af því að andstaða var — hjá hverjum, virðulegi forseti? Hæstv. stjórnarliðum.

Nær væri að hv. þingmaður spyrði þingmenn úr eigin flokki (Forseti hringir.) til að sjá hvernig það mundi sýna sig í atkvæðagreiðslu hver afstaða (Forseti hringir.) þingmanna Vinstri grænna er og þingmanna Samfylkingarinnar. En ég (Forseti hringir.) læt ekki hv. þm. Björn Val Gíslason taka mig upp í því hver afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) verður í þessu. Hún mun koma í ljós.

(Forseti (SIJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða ræðutíma.)