141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:57]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma hingað upp og reifa stuttlega nokkur atriði um leið og ég fagna því mjög að fá tækifæri til að standa hér og gleðjast yfir því að nú sé komið að því að atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum, sem svo lengi hefur verið í undirbúningi, sé að verða að veruleika. Við skulum að minnsta kosti vona það. Auðvitað erum við að ræða mál sem er bæði háð því að samningurinn við fyrirtækið sem um ræðir verði að veruleika, svo og að samþykki ESA fáist. Tekið skal þó fram að allar ívilnanir sem hér um ræðir eru vel innan þeirra ramma sem ESA gerir ráð fyrir.

Málið sem um ræðir er að uppbygging er nú að hefjast á því svæði sem Landsvirkjun telur tilbúnast til uppbyggingar í orkufrekum iðnaði, þ.e. á norðaustursvæðinu í Þingeyjarsýslum. Landsvirkjun hefur þegar hafið heilmikla undirbúningsvinnu að jarðvarmavirkjunum í Þeistareykjum og í Bjarnarflagi. Við erum að tala um 33 þús. tonna kísilver sem mjög auðveldlega verður síðan stækkanlegt upp í 66 þús. tonn. Það mun hafa orkuþörf upp á 52 megavött sem síðar mun fara upp í rúmlega 100 megavött. Uppbyggingin á iðnaðarsvæðinu er í eðlilegu samhengi við þá varfærnu uppbyggingu sem eðlileg er þegar við erum að prófa okkur áfram með jarðvarmavirkjanir sem við þekkjum í raun og veru ekki svo vel. Ég verð að viðurkenna að ég gleðst mjög yfir því að við séum að fara þessa leið, þ.e. að fara smám saman í uppbyggingu á svæði þar sem viðkvæmar orkulindir eru, þarna er stöðugt og gott fyrirtæki að koma inn og þetta er örugg uppbygging, en varfærin á sinn hátt.

Það kostar auðvitað dálítið. Það verður til þess að innviðauppbyggingin verður dýrari, hafnarbyggingin og vegaframkvæmdirnar standa að sjálfsögðu ekki undir sér með ekki stærri fjárfestingu en þetta þó að okkur finnist hún vera talsvert stór. Okkur munar talsvert um 28 milljarða og þau 250 störf sem þarna eru undir og mun fleiri á byggingartímanum. Þarna er verið að fara á varfærinn hátt í uppbygginguna sem kostar sitt, en gestir sem komu fyrir atvinnuveganefnd sögðu að þegar við værum komin upp í þá stærð sem ætluð væri á þessu kísilveri, upp í 66 þús. tonn, værum við komin í þá stöðu að höfnin gæti verið sjálfbær. Þá verði hægt að fara að greiða af því láni sem ætlað er að ríkið inni af hendi til þess að fara í uppbyggingu hafnarinnar samkvæmt eðlilegu ferli.

Mig langaði fyrst og fremst til að koma hingað upp og fagna því að við værum að fara í þessa uppbyggingu. Þetta er afar vel ígrunduð og vel undirbúin framkvæmd. Þarna er allra varúðarsjónarmiða gætt þannig að ekkert er hægt að gera annað en gleðjast sérstaklega yfir henni.

Við verðum að horfast í augu við að á þessu svæði hefur því miður verið stöðug fólksfækkun í nokkurn tíma. Samfélagið er orðið nokkuð gamalt og því erfitt fyrir það að standa undir þeim góðu og traustu innviðum sem þar eru. Á svæðinu eru sterkir innviðir, góð heilbrigðisþjónusta, sterkir grunnskólar og tveir góðir framhaldsskólar. Svæðið er því algjörlega tilbúið til þess að taka við þeirri uppbyggingu sem þarna verður og þeirri fólksfjölgun sem reikna má með.

Líka má tala um þetta út frá hinni hliðinni, svæðið þarf á fólksfjölguninni að halda til þess að þeir góðu innviðir sem þar eru geti haldið áfram að vera eins traustir og nú. Þetta heldur því hvort í annars hönd.

Ákveðnir styrkir verða veittir til þess að byggja upp iðnaðarlóð. Einnig verða veittir ákveðnir þjálfunarstyrkir og ákveðnar ívilnanir sem eru samt algjörlega innan rammans. Stundum gleymist að við erum nýbúin að samþykkja ívilnanalög sem eru alls ekki langt frá því sem hér er verið að veita. Auðvitað hefðum við mjög gjarnan viljað vera innan þeirrar rammalöggjafar sem við höfum samþykkt, en við stöndum frammi fyrir erfiðu efnahagsástandi í heiminum og þurfum þess vegna að leggja talsvert á okkur til þess að laða að okkur erlenda fjárfestingu sem okkur er afar mikilvæg. Því verðum við að fara aðeins út fyrir rammann vegna þessara sérstöku aðstæðna, en það verður ekki til þess að mikilvægi þess að við reynum að halda okkur við þá ramma sé minna.

Í þeim gögnum sem liggja fyrir er talað um að eins og staðan er núna mundi fólki jafnvel fækka um 300 manns næstu 10 árin ef ekkert væri að gert, en ef farið er í þá uppbyggingu sem verið er að mæla með gæti fólki fjölgað um 750–1.130. Það munar um minna og mundi styrkja þetta svæði verulega.

Fram kom í umræðum og athugasemdum fyrir nefndinni að hættulegt gæti verið að fella hið almenna tryggingagjald alveg niður, en við teljum að nefndin hafi fullkannað það, það mun á engan hátt hafa áhrif á réttarstöðu þeirra sem þarna starfa. Alveg gulltryggt á að vera að þær athugasemdir sem meðal annars komu fram hjá meiri hluta fjárlaganefndar skipti ekki neinu máli.

Enn og aftur vil ég ítreka hamingjuóskir mínar og gleði yfir því að við séum á þessum stað núna. Við erum að fara í eðlilega og hógværa uppbyggingu á þessu svæði sem ég held að sé miklu farsælla heldur en að hafa farið á stað með risastóra uppbyggingu í einu skrefi. Ég held að þarna séum við á góðri leið, enda hefur þetta allt verið unnið í mjög góðu samstarfi allra aðila, heimaaðila, Landsvirkjunar, Landsnets og allra aðila. Hér held ég að sé stigið mikið heillaskref.