141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[02:30]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hugur minn stendur nú ekki til að lengja þessa umræðu en ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað inn í nóttina um þetta mál. Í fyrsta lagi tek ég undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að þótt hér sé mikilvægur áfangi á ferð og það skipti að sjálfsögðu afar miklu máli að vilji Alþingis komi skýrt í ljós — vonandi stendur hann til þess að styðja við bakið á þessum verkefnum í samræmi við það sem frumvörpin ganga út á — þá er málið þar með ekki endanlega í höfn að öllu leyti. Umhverfismat er í kynningu, skipulagsvinna og síðan endanlegir samningar og þá þarf að upphefja fyrirvara beggja viðsemjenda um orkukaup og aðra slíka hluti.

Hér er auðvitað mjög stór áfangi á ferð, fyrst og fremst vegna þess að hann er til staðfestingar á því að unnt verði að fullnusta samkomulag sem hefur tekist milli fjögurra aðila, þ.e. fyrirtækisins PCC, ríkisins, Norðurþings og hafnarsjóðs Norðurþings, um umgjörð verkefnisins. Það samkomulag er í höfn og er undirritað. Þar með má svara einni spurningu nokkurra sem hér komu fram á þann veg að ekki er óskað eftir frekari stuðningi eða aðgerðum af hálfu viðsemjendanna. Fyrir liggur samkomulag undirritað um að hér er komin sú umgjörð sem menn eru sáttir við varðandi verkefnið. Þá er spurningin: Er löggjafinn, fjárveitinga- og fjárstjórnarvaldið, samþykkur því að heimildir verði til að fullnusta samkomulagið því að sjálfsögðu er það undirritað með fyrirvara um slíkar heimildir?

Þetta svarar líka að nokkru leyti því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gerði hér að umtalsefni, hvers vegna sú aðferð sé valin að setja málið fram í tveimur frumvörpum sem flutt eru af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þó að þau komi inn á verksvið fleiri ráðuneyta. Það er einfaldlega vegna þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fer með samningagerðina og þar eru þeir hlutir sem til þurfa að koma til þess að verkefnið geti orðið að veruleika á einum stað. Þetta er þar af leiðandi sett saman í heildarlög af þessu tagi.

Hér þarf að afla heimilda fyrir því sem ríki og sveitarfélag leggja af mörkum. Það er að sjálfsögðu gert á grundvelli sérstaks samkomulags við sveitarfélagið þar sem það lýsir því yfir af sinni hálfu að það vilji leggja sitt af mörkum í samningana. Það er erfitt að ná utan um þetta öðruvísi en þannig að gera það á einum stað með einu frumvarpi sem kemur með þær heimildir sem til þarf. Síðan þegar til framkvæmdarinnar kemur fara að sjálfsögðu fjárveitingar eða lánveitingar eftir hefðbundnum leiðum inn í verkefnið, en heimildanna er aflað í byrjun með þessum hætti til staðfestingar samkomulaginu sem fyrir liggur.

Ég vil þá koma aðeins inn á þann misskilning sem einhvers staðar fór af stað um að ívilnanir gagnvart tilteknum skattstofnum, eins og almenna hluta tryggingagjaldsins, kynnu að hafa einhver áhrif á réttarstöðu starfsmanna fyrirtækisins. Þar er um hreinan misskilning að ræða sem stafar held ég af því að menn þekkja ekki fyrirkomulag þessara hluta. Vel að merkja er veittur afsláttur á hluta almenna tryggingagjaldsins, þ.e. þetta kemur ekki inn á greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð eða í Ábyrgðasjóð launa heldur eingöngu hinn almenna hluta tryggingagjaldsins er rennur til ríkisins sjálfs. Það er að vísu rétt að þar eru tilteknir þættir eyrnamerktir, sem ganga til fæðingarorlofssjóðs og starfsendurhæfingarsjóðs o.s.frv. eða við skulum segja að áætlað sé fyrir því í heildarprósentu ríkisins í almenna tryggingagjaldinu að með því sé aflað fjár til að mæta útgjöldum af þessu tagi. Hér er um tekjustofn ríkisins að ræða. Það er ríkið sem veitir tiltekinn afslátt af skatttekjum sem yrðu auðvitað ekki til ef ekki yrði ráðist í verkefnið. Það er misskilningur að innheimtan sé rakin til einstakra starfsmanna á bak við fyrirtækið sem standa mun skil á þessum greiðslum og fær síðan þær endurgreiddar eða eftir atvikum felldar niður í skattalegu uppgjöri sínu við þar til bær yfirvöld. Það er að sjálfsögðu ekki svo. Allir ívilnunarsamningar eru byggðir á sama grunni.

Það er dálítið athyglisvert að þessi umræða skuli nú fyrst koma upp af hálfu tiltekinna aðila þegar þessi ívilnunarsamningur er gerður. Ég hef aldrei heyrt á þetta minnst áður í þó nokkuð mörgum ívilnunarsamningum sem eru í gildi og eru í gangi þar sem er til dæmis veittur tiltekinn afsláttur af almennu tryggingagjaldi, einfaldlega vegna þess að sú hugsun hefur ekki komið upp og er alveg ástæðulaus.

Þegar þetta er betur skoðað þá gerist það þannig að ríkið veitir tiltekinn afslátt, fellir niður eða endurgreiðir tiltekinn hluta af þessum tekjustofni. Þegar einstakir starfsmenn sækja síðan rétt sinn samkvæmt lögum, t.d. um greiðslu fæðingarorlofs, gera þeir það til Fæðingarolofssjóðs. Fæðingarorlofssjóður hefur aftur fjárheimildir samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Honum eru ætlaðar fjárveitingar til að standa straum af því að geta greitt öllum sem til þess eiga rétt og hafa verið á vinnumarkaði og eru í starfi fæðingarorlof. Þannig gerist það, annað er algjör misskilningur. Það liggur í eðli málsins og í þessari framkvæmd að það getur aldrei haft áhrif á réttarstöðu einstakra starfsmanna. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig sá misskilningur hefur komist á kreik, jafnvel á æðstu stöðum. Til þess að valda þetta enn betur var að sjálfsögðu farið yfir málið með velferðarráðuneyti og velferðarráðuneytið staðfestir það, að sjálfsögðu er þetta svona. Þetta hefur ekki áhrif og hefur aldrei staðið til að það hefði áhrif á réttarstöðu einstakra starfsmanna, enda væri slíkt ekki hægt því að það mundi leiða til mismununar.

Það er mjög mikilvægt að líka sé haft í huga að hér er um tiltekna fjárfestingu ríkisins að ræða í umtalsverðu verkefni sem skilar verulegum fjármunum í þjóðarbúið. Hér er eingöngu undir og hefur eingöngu verið rakin sú fjárfesting sem er hjá iðnfyrirtækinu sjálfu. Þar til viðbótar koma auðvitað fjárfestingarnar í innviðunum, framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, framkvæmdir á vegum orkufyrirtækisins og framkvæmdir á vegum línufyrirtækisins. Þegar pakkinn allur er reiknaður saman er hann talsvert meiri en þær tölur sem hér eru nefndar upp á 28 milljarða kr. í beinni fjárfestingu í iðjuverinu.

Ríki og sveitarfélög munu þar af leiðandi hafa umtalsverðar tekjur af umsvifunum á byggingartíma og fá sitt margfalt til baka á móti þeim takmörkuðu ívilnunum sem þarna eru veittar og eru að langmestu leyti innan ramma laganna um ívilnanasamninga sem nú er stuðst við.

Það er rétt að minna á að Alþingi hefur nýverið samþykkt þá breytingu að taka út heimild til greiðslu stofnstyrkja. Á móti var ramminn til ívilnana á tíu ára tímabili víkkaður nokkuð. Eftir sem áður og með þessum ívilnunum, þar sem vissulega er gengið lengra sérstaklega í tveimur tilvikum en almenni ramminn heimilar, erum við langt innan allra marka sem evrópskar reglur heimila um stuðning við verkefni af þessu tagi, ég tala nú ekki um þegar það er staðsett á byggðakortinu eins og það er að rök standi til þess að greiða fyllstu byggðastyrki ef svo ber undir til svona verkefnis. Þegar þar við bætist nýtt iðnaðarsvæði, uppbygging á nýjum stað á köldu svæði o.s.frv., standa mörg rök til þess og það staðfesta allir sem eru kunnugir þessum fræðum að ef ástæður eru til ívilnana einhvers staðar í ríkari mæli en ella þá er það við aðstæður af þessu tagi.

Það er líka rétt að minna á að ívilunarlögin eru rammalög. Þau eru heimildarlög í eðli sínu og stjórnvöldum er í sjálfsvald sett að meta og ákveða hvaða forsendur þau telja uppfylltar hverju sinni til þess að veita ívilnanir og hversu langt það gengur eftir atvikum. Þannig hefur það nú þegar verið í framkvæmd. Allmargir ívilnunarsamningar eru í gangi þar sem gengið er mislangt eftir eðli máls. Einn tiltölulega mjög nýlegur var undirritaður gagnvart uppbyggingu á Suðurnesjum þar sem ekki stóðu rök til þess að veita nema í sjálfu sér grunnívilnanir.

Menn hafa aðeins verið hér með skreytni í minn garð. Ég tek því ákaflega vel. Menn mega alveg gamna sér við það hér um nótt að finnast það athyglisvert að fyrrverandi formaður Vinstri grænna flytji þetta mál. Ég geri það með góðri samvisku einfaldlega vegna þess að ég tel þetta vera gott verkefni sem kemur á góðum tíma fyrir þjóðarbúið og muni gagnast þessu svæði og nærliggjandi svæðum ákaflega vel. Þar hefur verið erfitt í búsetuþróun og atvinnuuppbyggingu. Hér er ný iðngrein að koma inn í landið. Þetta er að flestra dómi vaxandi iðngrein því að hún er framleiðandi hráefna fyrir iðnaði sem fer ört vaxandi, ekki síst sólarrafhlöðumarkaðinn. Hreinkísilframleiðsla er að aukast í heiminum og eftirspurn er spáð vaxandi á komandi árum og jafnvel áratugum vegna þess meðal annars að hráefnið er fyrir vaxandi greinar sem tengjast umbreytingu í orkumálum og öðru slíku. Þar af leiðandi er auðvitað spennandi fyrir okkur að vera þátttakendur í þessari tegund uppbyggingar.

Þessi starfsemi skapar hlutfallslega mörg störf borið saman við orkueiningu. Í samanburði við til dæmis álver og losun minni ég á að ekki er um sambærilega afurð að ræða. Eitt tonn af hreinkísli er að sjálfsögðu ekki það sama og eitt tonn af áli.

Framkvæmdirnar eru af mjög viðráðanlegri stærðargráðu fyrir svæðið. Það er ástæða til að ætla að vinnumarkaðurinn ráði mun betur við þetta á þessu svæði en allt aðrar og margfalt stærri framkvæmdir, ekki síst með tilkomu Vaðlaheiðarganga mun það ganga greiðar fyrir sig en ella.

Varðandi umhverfismálin hafa menn helst staldrað við það að ýmsir hafa áhyggjur af Mývatni og Laxá. Þeim áhyggjum deili ég og vil stíga varlega til jarðar á því svæði. Það er ekki alveg nýtt í minni sögu. Mér hefur oft verið borið það á brýn að hafa ekki verið sérstakur stuðningsmaður kísiliðjunnar sem dældi upp hráefni af botni Mývatns og er nokkuð til í því þó að það sé ofsögum sagt að ég hafi staðið yfir höfuðsvörðum hennar. Þeirri starfsemi lauk af öðrum ástæðum, einfaldlega vegna þess að hinn erlendi eigandi ákvað að fjárfesta ekki í endurnýjun verksmiðjunnar og frekari rekstri, en það er önnur saga.

Landsvirkjun hefur þegar upplýst að hún muni ekki ráðast í nema fyrri áfanga Bjarnarflagsvirkjunar, verði borið niður þar. Ekki er víst á þessu stigi hvort hafist verður handa strax á Þeistareykjum. Það á eftir að ákveða endanlega í stjórn Landsvirkjunar. Verði farið af stað í Bjarnarflagi verður það aðeins fyrri hluti virkjunarinnar til þess að vera langt innan allra öryggismarka í sambandi við losun brennisteins og förgun affallsvatns. Landsvirkjun og stjórnvöld eru vel meðvituð um að þar er byggt á gömlu umhverfismati enda hefur staðið yfir skoðun á því hvort ástæða sé til að fara á nýjan leik yfir aðstæður þar.

Kosturinn við þetta er meðal annars sá að að baki standa háhitasvæði Suður-Þingeyjarsýslu þar sem þrjú eru í nýtingarflokki og allgóðar horfur um orkuöflunarmöguleika á komandi árum, þess vegna á löng árabili sem gæti byggst upp í þrepum í samræmi við þá aðferðafræði sem Landsvirkjun hefur nú mótað í þeim efnum og ég tel mjög skynsamlega og hina einu réttu, þ.e. að taka háhitasvæðin í gagnið í skrefum og læra betur og betur á þau með hverjum áfanga sem tekinn er. Þannig er líklegt að virkjað yrði á Þeistareykjum í að minnsta kosti tveimur ef ekki þremur áföngum og Krafla yrði stækkuð í tveimur til þremur áföngum sömuleiðis.

Þetta býður upp á góða möguleika til þess að afhenda orku í hóflegum skömmtum til lítilla eða meðalstórra iðnfyrirtækja. Mat Landsvirkjunar og fleiri sérfræðinga sem það hafa rýnt er að komist uppbygging af stað á þessu svæði verði til mjög áhugaverður kostur til frambúðar til staðsetningar fyrir fleiri lítil og meðalstór iðnfyrirtæki. Nokkur hafa þegar sýnt svæðinu áhuga, mislangt komin. Það er kostur fyrir Ísland. Það er gott að fjölga valkostum í þessum efnum. Ég held að af bæði umhverfislegum og byggðalegum ástæðum hafi markmiðið verið að orkan á þessu svæði yrði nýtt þar. Það hefur kosti í sambandi við flutninga, orkutap í kerfinu og fleira mætti nefna, auk þess sem það er auðvitað mikilvæg forsenda samstöðu í héraði um verkefni.

Allt finnst mér hníga að sama brunni, að sömu niðurstöðu. Þetta eru áform sem við ættum að geta sameinast um að styðja, en auðvitað á að fara fram með ýtrustu gát þarna eins og alls staðar annars staðar. Mér er ekki kunnugt um að neitt annað standi til af hálfu þeirra sem um það véla.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, virðulegur forseti, og þakka aftur fyrir umræðuna og vona að þessi mál fái nú brautargengi og framgang og endanlega afgreiðslu á Alþingi.