142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Internetið býður upp á mikla möguleika við öflun upplýsinga og til lýðræðislegra vinnubragða. Möguleikarnir eru óþrjótandi hvernig sem á málið er litið, fyrir alla. Það er vandinn. Lýðræðistækinu má hæglega snúa upp í andhverfu sína og í Bandaríkjunum hafa nú komið fram ásakanir um að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA (National Security Agency), og alríkislögreglan FBI hafi um langt skeið safnað og samkeyrt upplýsingar um fólk, bæði frá símafyrirtækjum og þekktum vefsíðum, Yahoo, Facebook, Skype o.fl., og rekið sameiginlega sérstaka leynilega stofnun, kölluð Prism, sem annist verkefni af þessu tagi.

Sá sem kom upplýsingum um þetta á framfæri við heiminn heitir Edward Snowden og var starfandi hjá Prism eða fyrirtæki sem því tengist. Hann er nú kominn til Hong Kong og heyrst hefur að hann gæti hugsað sér að fá hæli eða búsetu á Íslandi. Engin slík beiðni hefur komið en mér finnst sjálfsagt að Íslendingar séu opnir fyrir því að taka við þessum manni og veita honum húsaskjól berist beiðni um slíkt. Við eigum alla vega að fylgjast vel með þessum málum og fara hugsanlega að dæmi Evrópusambandsins en Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins, hefur sent Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, bréf þar sem hún fer fram á upplýsingar um net- og símanjósnir Bandaríkjamanna. Hún segir að svör Holders geti haft áhrif á samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Ég beini því til allsherjarnefndar Alþingis að (Forseti hringir.) taka þetta mál upp og fylgjast með því og einnig til utanríkismálanefndar þingsins. (Forseti hringir.) Þetta mál á heima í þinginu fremur en í ráðuneytum að mínum dómi.