142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að kanna við hæstv. forseta hvort hæstv. menntamála- og menningarmálaráðherra sé til staðar í húsinu og hyggist taka þátt í umræðunni eða a.m.k. fylgjast með henni og jafnvel svara fyrirspurnum ef einhverjar slíkar skyldu nú hrjóta hér af vörum þingmanna. Er hæstv. ráðherra í húsinu?

(Forseti (EKG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og ætti að hafa aðstöðu til að fylgjast með umræðunni.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þau svör.

Hér er sem sagt til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, breyting á lögum nr. 23/2013, sem samþykkt voru nú skömmu fyrir kosningar.

Frumvarp það sem var til umfjöllunar á síðasta þingi og hafði svo sem verið til umfjöllunar í þinginu nokkuð lengi var samþykkt í góðu samkomulagi stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Það studdu það allir flokkar utan Sjálfstæðisflokks. Þrír eða fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn málinu en flestir sátu hjá við afgreiðslu málsins, þar á meðal hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, þannig að ekki var það nú á forgangslista hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra að þetta yrði hans fyrsta mál á nýju kjörtímabili ef hann hefði aðstöðu til þess og kæmist í þetta hlutverk.

Þessi lög eru sem sagt ný af nálinni. Þau hlutu góðan stuðning í þinginu og voru meira að segja svo góð og umdeild, þótt þau séu á fjölmiðlasviði, að þau hlutu staðfestingu forseta lýðveldisins. (Gripið fram í: Óvanalegt um fjölmiðlalög.) Það er óvenjulegt um fjölmiðlalög, það mætti kannski segja það. Hver veit nema þetta frumvarp, ef að lögum verður, hljóti sömu örlög og ýmis fyrri á þessu málasviði þegar þar að kemur, ef þar að kemur? En látum það liggja milli hluta.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra taldi það a.m.k. ekki sérstaklega brýnt fyrir kosningar í vor að gera breytingar á þessum lögum, ekki kom neitt slíkt fram af hans hálfu. En hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu fyrr í dag: „Þegar ég sá hvaða fólk hafði verið tilnefnt …“ Og nú er spurningin: Var það þess vegna sem hæstv. menntamálaráðherra lagði fram frumvarpið, þ.e. þegar hann sá hvaða fólk var tilnefnt í valnefnd? Sá hann þá tilefni til þess að koma fram með frumvarp um að breyta lögunum á skipan Ríkisútvarpsins? Var það þess vegna? Honum var a.m.k. mjög tíðrætt um fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefndinni, fyrrverandi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það var eins og það væri alveg sérstök ástæða fyrir því að hæstv. ráðherra hefði flutt þetta frumvarp nú.

Það kemur mér líka á óvart að Framsóknarflokkurinn, sem studdi málið á þingi í vor, skuli hafa ljáð máls á því að þetta færi inn í þingið sem stjórnarfrumvarp strax á fyrstu dögum sumarþings sem maður hefði gert ráð fyrir að ætti að vera lagt undir brýnustu mál stjórnarflokkanna að afloknum kosningum. Ég hefði haldið að það væru brýnustu kosningaloforð þeirra að því er varðar hagsmuni heimilanna sem kæmu til umfjöllunar á sumarþingi.

Þess vegna verð ég að segja að ég er mjög undrandi á því að Framsóknarflokkurinn skuli hafa ljáð máls á því. En við eigum enn eftir að heyra sjónarmið framsóknarmanna almennt í þessu máli í umræðunni og væntanlega í þingnefnd þegar það kemur þangað hvort þeir hafa algerlega snúið við blaðinu hvað þetta áhrærir eða hvort það verður einhver fyrirstaða á þeim vettvangi fyrir því að málið hljóti brautargengi eins og það er lagt fyrir þingið.

Ég vil í meginatriðum vísa efnislega í þá umfjöllun sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór yfir í ræðu sinni fyrr í umræðunni þar sem hún rakti mjög vel aðdraganda og tilurð þessa frumvarps, hvaða sjónarmið hefðu verið uppi varðandi breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins og hvaða sjónarmið það hefðu verið að reyna að draga fleiri að, ekki endilega til að skilja algerlega á milli stjórnmálasjónarmiða og svokallaðra faglegra sjónarmiða heldur að tryggja breiðari aðkomu að stjórn Ríkisútvarpsins m.a. úr menningargeiranum og úr háskólasamfélaginu.

Þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla í umræðunni í morgun um að hætt væri við því að ráðherra menntamála gæti beitt áhrifum sínum í háskólum, á háskólasamfélagið til þess að hafa áhrif á það hverjir yrðu valdir í valnefnd finnast mér lýsa mjög sérstöku viðhorfi hæstv. ráðherra til háskólanna og lítils trausts á því að þeir starfi sjálfstætt og láti ekki segja sér fyrir verkum. Mér finnst það vera lítilsvirðing við háskólastigið að tala með þessum hætti. Að sjálfsögðu getur háskólastigið tilnefnt fulltrúa sína þarna á sínum faglegu forsendum, sjálfstæðum og óháðum forsendum. Ég tel að ráðherrann sé á villigötum hvað þetta snertir.

Hér er sem sagt verið að leggja til að fara aftur í gamalt far og kjósa alla stjórnarmenn í Ríkisútvarpinu á Alþingi. Ráðherrann hefur fært þau rök fyrir því að það sé mikilvægt að það sé milliliðalaust pólitískt umboð sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur frá kjörnum fulltrúum á Alþingi þannig að þeir sem kjósa þessa fulltrúa geti staðið til svara gagnvart kjósendum, verði einhver mistök í starfi.

Gott og vel. Það er auðvitað ákveðið sjónarmið, en það kemur samt sem áður ekki í veg fyrir að stjórn Ríkisútvarpsins sé skipuð á breiðari grundvelli en hinum pólitískt kjörna vettvangi Alþingis einum saman. Það kemur ekki í veg fyrir að fleiri geti komið þar að til þess að breidd sé í þeim viðhorfum og sjónarmiðum sem koma saman í stjórn Ríkisútvarpsins. Það tel ég einmitt að lögin sem enn eru í gildi geri, því að þau tryggja í fyrsta lagi hæstv. menntamálaráðherra tengingu með því að hann skipar formanninn. Þau tryggja að einhver tenging er við Alþingi með því að allsherjar- og menntamálanefnd tilnefni fulltrúa í valnefndina, þrjá fulltrúa að ég hygg, og síðan á það sem sagt breiðari aðkomu með því að Bandalag listamanna og háskólasamfélagið tilnefni inn í valnefnd.

Nú er ekki sjálfgefið að valnefndin velji fólk úr sínum innstu röðum, það er enginn áskilnaður um slíkt í lögunum. Það er að vísu ekki óeðlilegt að listamaður komi inn í stjórnina sem sé nefndur af valnefndinni, eða þá fólk úr háskólasamfélaginu, það er ekki áskilnaður um það. Að sjálfsögðu getur valnefndin litið mjög breitt yfir það svið og valið einstaklinga sem hún telur að hafi góða þekkingu á fjölmiðlum almennt, á rekstri, á menningarmálum, því að þetta er auðvitað ein af okkar mikilvægustu menningarstofnunum.

Ég tel því að það fyrirkomulag sem sett var með lögunum í vor hafi náð að fanga þessi ólíku sjónarmið og ólíka nálgun á málið með ágætlega góðum hætti án þess að gengið sé á það sem hæstv. ráðherra talaði um, að væri einhver pólitísk ábyrgð á stjórn Ríkisútvarpsins.

Ég verð að segja það fyrir mína parta, herra forseti, að ég tel að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé á villigötum með málið og að þetta sé ekki brýnt mál og geti varla verið brýnasta málið sem ríkisstjórnin leggur inn í þingið á sumarþinginu, það bara getur ekki verið. Það kann að vera eitthvert metnaðarmál hæstv. ráðherra, en ég hlýt að velta því fyrir mér hvort þetta verði nú efst á forgangslistanum þegar ríkisstjórnin þarf að fara að gera það upp við sig hvað hún ætlar að fá afgreitt á þessu þingi og hvað ekki.

Þegar lögin eru í raun að taka nú gildi eða komast til framkvæmda með því að tilnefningaraðilar eru búnir sumir hverjir að tilnefna í valnefndina samkvæmt gildandi lögum hefði ég talið affarasælla fyrir hæstv. ráðherra að láta það ferli ganga í samræmi við lögin og fá þá reynslu á þetta fyrirkomulag og gefa því einhvern séns þannig að það væri hægt að segja eftir einhvern reynslutíma hvort fyrirkomulagið gefst vel eða illa. Það séu þá einhver slík rök ef hæstv. menntamálaráðherra mundi vilja gera breytingu á því á síðari stigum að hann geti vísað til þess að reynslan af fyrirkomulaginu sé ekki góð eða eitthvað þess háttar, í staðinn fyrir að ana fram á sumarþinginu með breytingar án þess að hafa látið á það reyna hvernig það fyrirkomulag sem góð samstaða var um — ég ítreka: góð samstaða var um hér í þinginu í vor, hefði átt að tryggja.

Málið er komið fram og mun væntanlega ganga til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég tel mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari rækilega í saumana á þeim rökstuðningi sem liggur á bak við það að gera þessa breytingu áður en lögin koma raunverulega til framkvæmda, að hún óski umsagna væntanlega allra þeirra aðila sem veittu umsögn um fyrra frumvarpið þegar það var til umfjöllunar, að hún kalli til sín gesti og fái að heyra sjónarmið þeirra sem komu hér að málum, þeirra sem eiga bersýnilega að eiga rödd í umræðunni um Ríkisútvarpið þannig að farið verði vandlega yfir það. Ég geng út frá því að það verði ítarleg umræða um það þegar málið kemur úr nefnd, ef það kemur úr nefnd, sem mun væntanlega byggja að einhverju leyti á þeim viðhorfum og sjónarmiðum sem fram koma í umsögnum um málið.

Ég geld varhuga við því að málið sé keyrt áfram á sumarþinginu. Ég tel í raun engar efnislegar forsendur hafa komið fram. Ég tel að um málið hafi verið góð samstaða á síðasta þingi. Í raun vorum við í miðju ferli við að láta lögin koma til framkvæmda með skipan valnefnda og annað slíkt, þannig að mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð. Ég hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til þess að íhuga og ígrunda þetta mál nú einnig miðað við þau viðhorf sem komið hafa fram í umræðunni á meðan málið er í vinnslu í þinginu.