142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. ráðherra Illuga Gunnarssyni velfarnaðar og gæfu í starfi þannig að það reyni mikið á ráðherra á næstu árum.

Sú umræða sem er fyrir framan mig er mjög skrýtin en það hefur sínar ástæður. Ríkisútvarpið starfar sem fjölmiðill í einkaeigu, þ.e. í eigu eins aðila sem er ríkið og hann hefur sömu eiginleika og aðrir fjölmiðlar í einkaeigu. Þess vegna hafa menn verið að setja fjölmiðlalög víða um lönd til þess að takmarka völd og áhrif eigandans á fjölmiðilinn. Jafnframt er Ríkisútvarpið mjög verndað, fær 18.800 kr. í útvarpsgjald frá hverjum einasta Íslendingi og öllum fyrirtækjum, þar á meðal frá hestum sem hlutafélag er um og það þarf í raun ekki að óttast neitt. Eins og alltaf þegar menn búa við þannig stöðu er hætta á að þeir tréni og staðni. Fyrir mér er Ríkisútvarpið eins konar risaeðla aftan úr forneskju sem drepur alla samkeppni í kringum sig, enda er mjög lítil gróska utan Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði vegna þess að samkeppnin er nánast útilokuð. Ég furða mig á þeim fjölmiðlum sem reyna að fara í samkeppni við ríkisútvarp sem nýtur slíkra styrkja og er auk þess með ríkið sem bakhjarl.

En, herra forseti, ég óttast eigi. Ég býst nefnilega við því og hef upplifað það að netið er vonin. Ég horfi miklu meira á þýskar sjónvarpsstöðvar en á íslenska sjónvarpsstöð og fæ allt aðra sýn á heiminn. Ég fylgist mjög mikið með og tíni upp fréttir héðan og þaðan og er ekkert háður því hvernig kaupin gerast á eyrinni hjá RÚV.

Ríkisútvarpið er ohf. Það segir mér að það er hlutafélag. Í hlutafélögum er það þannig að eigendur eða eigandi ræður stjórninni á hluthafafundi, en ekki hér, ekki samkvæmt þeim lögum sem samþykkt voru í vor. Samkvæmt þeim á einhver valnefnd að velja fyrir hluthafafundinn hverjir eiga að fara í stjórn. Það er náttúrlega alveg fáránlegt, fyrir utan það sem bent hefur verið á í umræðunni að það er spurning hvort hægt sé að taka þá ákvörðun frá ráðherra sem ber svo ábyrgð á gjörðum þeirrar stjórnar sem valnefndin kýs. Þarna er því farið mjög rangt að, finnst mér.

Ég var á móti frumvarpinu þegar það var lagt fram í vor, ég greiddi atkvæði gegn því, svo það sé á hreinu, einn af þessum fjórum, og er ánægður með það. Ég hefði talið að ef menn vildu leita að einhverjum fulltrúum almennings væri nú einn sjálfkjörinn sem alltaf talar um sig sem fulltrúa almennings, þ.e. ASÍ, eða SA eða Verslunarráðið eða Viðskiptaráðið eða hver sem er, þannig að það eru margir aðilar til kallaðir til að vera fulltrúar almennings.

Hvers vegna eru menn að vandræðast með fjölmiðlalög og eignarhald og annað slíkt? Það er vegna þess að menn telja að til hliðar við löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, hinar þrjár meginstoðir valdsins, sé komið fjórða valdið, fjölmiðlar, og það er ekki hvað síst. Þess vegna hafa menn um allan heim miklar áhyggjur af eignarhaldi fjölmiðla og hvernig eigandi getur haft áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðla jafnvel þó að hún sé tryggð með lögum.

Menn vita yfirleitt hver borgar saltið í grautinn þeirra. Háskólamenn vita hverjir standa að fjárveitingum. Háskólamenn vita hvern á að hafa góðan ef þeir ætla að fara í einhver verkefni, stækka skólann sinn eða eitthvað slíkt. Það á að hafa ríkisstjórnina góða og alveg sérstaklega fjármálaráðherrann. Ef svona valnefnd kemur upp þekki ég mannlegt eðli svo vel að menn mundu ekki fara að stuða ríkisstjórnina með því að fara að tilnefna eitthvert fólk sem er greinilega andsnúið ríkisstjórninni. Það er nú bara þannig. Þannig er mannlegt eðli.

Þess vegna er allt tal um óhæfi og annað slíkt, að háskólasamfélagið sé óháð og annað slíkt ekki rétt, það er ekki þannig á meðan það er greitt af ríkinu.

Ég held því að valnefndin muni hegða sér alveg nákvæmlega eins og Ríkisútvarpið sjálft. Um leið og stjórnarskipti verða vita menn hvernig þeir þurfa að breyta fréttaflutningnum, þeir vita það. Þeir vita nákvæmlega hver getur breytt lögunum um fjárveitingar, hver getur skorið niður, hver getur minnkað o.s.frv. og hver getur aukið. Það er ósköp mannlegt. Þess vegna eru menn alls staðar að ræða um fjölmiðlalög. Ríkisútvarpið hefur það einkenni að það er einn eigandi og það er einhver sem stýrir þeim eiganda. Það er forsætisráðherra og ríkisstjórn. Það getur vel verið að menn séu svo óskaplega skoðanalausir og sjálfstæðir að þeir geti unnið gegn því, en ég held að hið mannlega eðli komi nú yfirleitt alltaf í gegn.

Hvorki RÚV né HÍ eru því óháðir aðilar. Það er alltaf einhver sem borgar þeim mönnum laun sem þar starfa og sem getur stuðlað að auknum framgangi, auknum verkefnum, meiri umsvifum o.s.frv. eða öndvert.

Þess vegna hef ég talið að þetta fyrirkomulag, þessi fjölmiðill, RÚV, sé bara nákvæmlega eins og aðrir fjölmiðlar og hafi ekkert sérstakt að gera. Þess vegna er ég alltaf dálítið óhress með að hengja við heitið „fjölmiðill í almannaþágu“. Mér finnst það bara, ég veit ekki hvað ég á að segja um það. Ég mundi bara segja: Þetta er fjölmiðill í þágu menntamálaráðherra. Það væri ef til vill langskynsamlegast ef menn ætla að hafa eitthvert viðhengi.

Ég man þá tíð er hér voru Tíminn og Þjóðviljinn og Morgunblaðið og það var alveg kristaltært fyrir hvað þeir stóðu. Maður las Tímann með þeim gleraugum að þar væri allt saman grænt, framsóknar-eitthvað og maður las Þjóðviljann með þeim gleraugum að þar væri eitthvað rautt, vinstri sinnað eitthvað, ég vil ekki segja kommúnistar. Og maður las Morgunblaðið með þeim augum að það væri eitthvað blátt, atvinnurekendur og eitthvað slíkt. Menn vissu það. Ég hlusta alltaf á RÚV með þessum heyrnartækjum, grænum, rauðum, eftir því hver er í ríkisstjórn. Núna þarf ég allt í einu að fara að skipta um því að ég geri ráð fyrir því að núna sé RÚV orðið blátt eða blágrænt, fyrirgefið, herra forseti, það er blágrænt.

Þess vegna hef ég flutt nokkrum sinnum frumvörp um að selja RÚV, taka skrefið til fulls og selja það fyrirtæki. Það er ágætisfyrirtæki. Ég ætlaði meira að segja starfsmönnum að hafa forkaupsrétt á sérstaklega lágu verði á hlutabréfunum vegna þess að fyrirtækið er ekkert annað en starfsmennirnir. Ég er viss um að þegar RÚV hf. í einkaeigu — í eigu starfsmannanna til að byrja með, þeir geta svo selt það ef einhver vill kaupa — stendur sig vel mundu þeir geta plumað sig eins og aðrir fjölmiðlar í landinu. Ég ætla að minnka styrkina hægt og rólega til þeirra þannig að þeir mundu aðlagast. Við fengjum allt í einu heilmikið af grósku í fjölmiðlaflórunni. Ég ætlaði meira að segja að hafa sömu peningana. Ég ætlaði að bjóða það allt saman út, að útvarpsráð starfaði áfram en byði út fréttaflutning, öryggismál, barnaefni o.s.frv. Þá gætu allir boðið í það og allir farið að starfa. Þá yrði nú aldeilis fjör á Íslandi. En sú hugmynd fékk nú ekki brautargengi. Kannski kemur að því að risaeðlan fellur um koll og það þarf að gera eitthvað, hver veit?