142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra á þessum tímapunkti um áætlanir ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum.

Fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar vekja forundran þegar boðaðar eru stórfelldar skattalækkanir á þá sem best eru í færum til að borga skatta en á sama tíma á að draga úr velferðarumbótum fyrir þá sem síst eru í færum til að bera auknar byrðar. Dapurlegast af öllu er að heyra forustumenn ríkisstjórnarflokkanna taka sérstaklega til gjaldfrjálsar tannlækningar barna sem við komum á rétt fyrir kosningar sem verkefni sem þyrfti sérstakrar umhugsunar við.

Hugmyndirnar sem síðast birtast eru lækkun veiðigjaldsins þar sem framsóknarmenn í þessari ríkisstjórn hafa greinilega keypt vúdúhagfræði Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er miðað við þá einkunn sem Jón Steinsson hagfræðingur gefur þessu, eins og hann lýsir hugmyndum hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þetta felur í sér vúdúhagfræði af allra verstu sort.

Það sem verra er er hið algera stefnuleysi. Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna boðuðu til fréttamannafundar í vikunni til að tilkynna að þeir hefðu fundið gat. Þetta gat eru þeir síðan alla daga núna að passa upp á að stækka, að draga úr tekjunum. Þeir komu ekki með nein svör á þessum langa fréttamannafundi. Ég beið alltaf eftir endanum á honum, ég beið alltaf eftir niðurstöðunni. Það komu engin svör á fréttamannafundinum um hvað þeir ætluðu að gera til að loka gatinu. Þeir lýstu því yfir að þeir hefðu fundið gat. Gatið mikla var aðalefni fundarins, engin svör um hvernig ætti að loka því.

Síðan stöndum við frammi fyrir því að peningastefnunefnd segir: Það er ekki hægt að lækka vexti vegna þess að það er fullkomin óvissa um framtíð ríkisfjármála. Seðlabankastjóri biður á blaðamannafundi um skýr svör. Á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum eða ekki? Ég hef margspurt að því og (Forseti hringir.) ég spyr enn og aftur, hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að geta sagt það hér og nú: Á að stefna að hallalausum fjárlögum á næsta ári eða ekki? (Forseti hringir.) Svar óskast, já eða nei. (Gripið fram í.)