142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi ríkisstjórn ætli sér að kanna leiðir til þess að lækka orkuverð til bænda á sambærilegan máta og orkuverð er til álvera. Ég ræddi töluvert við fráfarandi ríkisstjórn um að meðan við erum með þessi höft á gjaldeyri sé nauðsynlegt að finna leiðir til þess að við séum sjálfbærari. Mér skildist að við gætum ekki gert þetta út af einhverju EES-dæmi. Mig langar því að spyrja ráðherrann hvort hann sé tilbúinn að kanna hvað stendur í veginum og hvort það séu einhverjar leiðir til þess að við verðum sjálfbærari varðandi framleiðslu á landbúnaðarvörum, þá sérstaklega grænmeti.

Það var mótuð hér stefna með öllum flokkum í formi þingsályktunar sem var svolítið merkileg og ég var mjög stolt af að vera aðili að. Hún hét græna hagkerfið. Hvernig ætlar núverandi ríkisstjórn að nýta sér þá þingsályktun sem hér var samþykkt til þess að við förum að nýta okkur stóriðju framtíðarinnar sem felst mjög mikið til dæmis í því að gera landið netvænna og að við búum hér til lagalegt, tæknilegt og gagnaversflutningalegt umhverfi þannig að aðilar sem vilja hýsa efni vilji koma hingað? Það er stóriðja framtíðarinnar því að þar getum við bæði laðað til okkar hámenntað fólk og nýtt okkur alla þá sem hér (Forseti hringir.) hafa sérmenntað sig til þess að geta unnið að stóriðju framtíðarinnar.