142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[11:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um breytingartillögu um að stækkun á bátum á krókaaflamarki fari upp í 15 metra að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn. Eins og komið hefur fram eru miklar áhyggjur í greininni hjá Landssambandi smábátaeigenda og félagsmönnum þar um hvað slík stækkun þýði, að verið sé að tefla í tvísýnu framtíð krókaaflamarkskerfisins sem byggist á smábátaútgerð og strandveiðum.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki á móti því að menn byggi upp og auki öryggi báta en það er spurning hvar þeir bátar eiga að vera, hvort þeir eiga að vera í stóra kerfinu eða krókaaflamarkskerfinu. Ég greiði atkvæði á móti þessari breytingartillögu vegna þess að ég tel að við þurfum að standa vörð um krókaaflamarkskerfið og þessar breytingar skapi hættu á að mikil samþjöppun verði í greininni og að grundvöllur krókaaflamarkskerfisins falli með því að mikil samþjöppun verði. Ég vil standa með því krókaaflamarkskerfi sem byggst hefur upp.