142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

8. mál
[18:26]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli, að vísu vonum seinna, fyrir þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt öllum þingmönnum Samfylkingarinnar. Meginefni hennar felur í sér að fram verði haldið viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu með þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum á næsta ári. Jafnframt felur þessi tillaga í sér að þær úttektir sem framkvæmdarvaldið hefur boðað að verði gerðar bæði á stöðu viðræðna og sömuleiðis stöðunni innan Evrópusambandsins verði gerðar í samvinnu þings og þjóðar.

Ég vil samt taka það fram að eftir að ég lagði fram þessa tillögu fyrir hönd Samfylkingarinnar hefur hæstv. forsætisráðherra talað skýrt um það með hvaða hætti hann hyggst láta vinna þessar úttektir, m.a. með aðkomu erlendra sérfræðinga og eingöngu af sérfræðingum þannig að tryggt er að engin sérstök pólitísk gleraugu verði notuð til þess að skoða þetta mál. Ég lýsi því hér yfir að ég er sáttur við þessa aðferðafræði hæstv. ráðherra og nefni það sérstaklega vegna þess að hann nefndi þetta úr ræðustól Alþingis eftir að við lögðum fram tillöguna. Hægt er að skoða þá þennan part tillögunnar með það fyrir augum líka. Í þessari tillögu er sömuleiðis gert ráð fyrir því að þessum úttektum verði lokið fyrir 1. desember. Margt mælir með því að auðvelt verði að gera það eins og ég kem síðar að í ræðu minni. Þetta er hins vegar nauðsynlegt til að hægt verði að ljúka afgreiðslu málsins, þ.e. umræðum um þessar úttektir á Alþingi, kynna þær fyrir þjóðinni og sömuleiðis virða þann lögbundna þriggja mánaða frest sem verður að vera frá samþykkt þingmáls um þjóðaratkvæðagreiðslu og þangað til hún er háð.

Tilefni þessarar tillögu er öllum kunnugt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur algjörlega skýrt fram að það á að gera hlé á viðræðunum, og við það hefur ríkisstjórnin nú þegar staðið, en þar kemur líka fram að það eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið. Ekkert hefur verið slegið í gadda um það. Nú kemur vitaskuld engum á óvart að Samfylkingin telur að þessi stefna sé í sjálfu sér ekki farsæl fyrir framtíð og hagsmuni Íslands. Við teljum óráð að gera hlé á viðræðunum. Við erum þeirrar skoðunar að það sé langfarsælast fyrir framtíð og hagsmuni Íslands að halda viðræðunum áfram, nota þann skriðþunga sem hefur verið á þeim til að ljúka þeim, taka allan þann tíma sem þarf til þess að ná góðum samningi og leggja síðan fullbúinn og endanlegan samning fyrir íslensku þjóðina.

Það er reyndar athyglisvert að það kom skýrt fram í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi sumarþings að allir þeir flokkar sem skipa stjórnarandstöðuna í dag eru sama sinnis. Þá er líka rétt að rifja það upp að núna vermir ráðherrabekki mætur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem á sínum tíma eyddi töluverðu þreki sínu í að skrifa gagnmerkar greinar til að tjá þjóðinni þá skoðun sína að það væri í samræmi við grundvallarsjónarmið Sjálfstæðisflokksins að þjóðin fengi að kjósa um aðildarsamning. Það liggur því alveg ljóst fyrir að margir hefðu getað hugsað sér það.

Við þingmenn sem erum andstæðrar skoðunar við stefnu ríkisstjórnarinnar teljum að sú ákvörðun að gera hlé með fullkominni óvissu um framhaldið sé ekki í þágu íslenskra hagsmuna. Við teljum það sóun á tíma, mannskap og fjármunum sem er búið að eyða í aðildarferlið og það skapi þar að auki mikla óvissu um framtíðarstefnu Íslands að hafa hlutina hangandi í lausu lofti. Það skapar til dæmis sérstaklega mikla óvissu varðandi gjaldmiðilsmálin til framtíðar og þau eru vitaskuld nátengd aðildarumsókninni eins og hæstv. forsætisráðherra skrifaði sérstaklega inn í þann texta sem hann flutti hér sem stefnuræðu. Við þurfum að komast út úr þessari stöðu sem einkennist af óvissu og áttavillu. Ég tel því að það sé farsælast fyrir Ísland að fá hreinar línur. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga lögð fram, til þess að fá hreinar línur. Hún felur það í sér að þjóðin fái sjálf að kjósa hvort hún vill hætta eða halda áfram viðræðunum samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Það er lýðræði, fólkið á auðvitað sjálft að fá að kveða upp sinn dóm og velja hvaða framtíð það velur fyrir sig og Ísland. Í þessum efnum voru loforð stjórnarflokkanna algjörlega kristaltær. Það kom fram að sönnu, eins og ríkisstjórnin hefur þegar staðið við, að það ætti að gera hlé á viðræðunum og að því leytinu er ekki hægt að brigsla hæstv. ríkisstjórn um að hafa komið aftan að neinum. Hún sagði hins vegar líka algjörlega skýrt að það ætti að halda þjóðaratkvæði um framhaldið. Það kemur til dæmis skýrt fram í stefnuskrá Framsóknarflokksins og þetta var eitt af því sem var slegið í gadda í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það sama var líka uppi í ályktun landsfundar Framsóknarflokksins sem og í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þar var reyndar gengið lengra, það var sagt að það ætti að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili.

Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði enn skýrar þegar hann hóf kosningabaráttu síns flokks 23. mars síðastliðinn. Þá taldi hann eðlilegt að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði haldin fyrri part kjörtímabilsins. Formaður Framsóknarflokksins, sem hefur lýst sjálfum sér sem frekar „líbó“ náunga, stóð undir því hvað þetta varðar og hann hefur margsinnis sagt að tímasetningin sé ekkert stórt mál fyrir sig og sinn flokk og hún megi þess vegna verða fyrr en seinna. Í þessari stöðu liggur fyrir að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi hafa lýst því yfir að þeir vilji að það verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna. Þá er spurningin einungis: Hvenær nákvæmlega?

Þá held ég að það væri hollt að skoða þá tillögu sem ég hef hér lagt fram fyrir hönd Samfylkingarinnar út frá þeim áformum sem leiðtogar stjórnarflokkanna hafa lagt fram um framvindu málsins. Eins og við munum sögðu þeir báðir við lyktir blaðamannafundar á Laugarvatni að fylgt yrði ákveðnu ferli. Það ætti að byggjast á tvenns konar úttektum, annars vegar á stöðu viðræðnanna og hins vegar á stöðunni í Evrópusambandinu, bæði hinni efnahagslegu og þó ekki síður þeim breytingum sem hafa orðið á Evrópusambandinu eftir að við sóttum um aðild og sömuleiðis þeim sem hafa verið kynntar. Margar þeirra hafa farið sérstaklega fyrir brjóstið á ýmsum forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Ég tel sjálfur að það skipti ekki máli vegna þess að það verður einn af þeim hlutum sem liggja algjörlega fyrir og eru á tæru þegar við mundum ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn í fyllingu tímans. Báðir formennirnir sögðu að í kjölfar þessara úttekta, sem ég eftir orðanna hljóðan tel að séu þá tvenns konar, ætti að taka málið til umræðu á Alþingi Íslendinga. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað með þeim hætti að hann virðist gera ráð fyrir því að þessari forvinnu verði lokið í haust vegna þess að hann sagði fyrir nokkrum dögum, um síðustu helgi held ég, í viðtali að þetta mál yrði tekið til umræðu á Alþingi í haust.

Formaður Sjálfstæðisflokksins virðist því ganga út frá því að úttektunum verði lokið í haust og þá sé hægt að taka niðurstöður þeirra hér til umræðu og taka í framhaldi af því ákvörðun um framhaldið. Ég tel þetta sjálfur fyllilega raunhæfa nálgun hjá hæstv. fjármálaráðherra. Öll gögn málsins liggja fyrir og það þarf ekki að fara í mikla rannsóknarvinnu til að ljúka þessum úttektum. Við vitum hvaða breytingar hafa orðið á innri gerð Evrópusambandsins eftir að umsóknin fór af stað. Við vitum hvaða breytingar eru fyrirhugaðar og það er athyglisvert, herra forseti, að þær sem mest hafa farið fyrir brjóstið á forustumönnum núverandi stjórnarflokka eru breytingar sem við munum þurfa að taka upp vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Að því er þær varðar er valið í reynd um það að ganga úr EES eða taka þær upp. Svo einfalt er það mál.

Í ljósi þessa og miðað við það hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað um tímasetningu á lokum þessara tveggja úttekta sem þarf að gera til þess að hægt sé að taka næsta skref fellur einfaldlega sú dagsetning sem ég legg til með þessari þingsályktunartillögu giska vel að þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur sjálf kynnt. Tímalínan er þá þannig að ríkisstjórnin hefði nægan tíma til þess að ljúka úttektunum og leggja fram þingmál og fá það samþykkt eftir viðeigandi umræðu á hinu háa Alþingi og sömuleiðis til þess að virða hinn lögbundna þriggja mánaða frest sem þarf að líða á milli samþykktar málsins og atkvæðagreiðslunnar sjálfrar.

Ef menn nálgast þessa tillögu hlutlægt og hlutlaust, vega hana á grundvelli þarfa okkar allra tel ég að allir ættu að geta samþykkt hana. Ég tel að það mundi hjálpa til að fá þær hreinu línur sem ég tel að þurfi í þessi mál með því að fallast á að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Það eru ýmis rök sem hægt er að tína til fyrir því að það sé farsælt að nota sveitarstjórnarkosningarnar til þess að halda þjóðaratkvæði umfram ýmsar aðrar dagsetningar sem þó má segja að komi líka til greina.

Það að hafa þetta samhliða slíkum kosningum tryggir góða þátttöku og niðurstaðan ætti þar með að sýna með nokkuð óyggjandi hætti vilja þjóðarinnar til þess hvort hún vill halda áfram viðræðunum eða hætta við þær. Fyrir utan þátttökurökin eru líka sérstök fjárhagsleg sparnaðarrök sem hægt er að nota til þess að mæla með þessu. Eins og menn vita kostar töluvert mikla peninga að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki langt síðan við gengum í gegnum eina slíka, þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, og ef ég man rétt þurfti ríkið að gera ráð fyrir í fjárlögum 200 millj. kr. til að klára hana. Þessa upphæð væri að stóru marki hægt að spara með því að nota kosningar til sveitarstjórna.

Það er hægt að nota margvísleg önnur rök líka til þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna með fyrra fallinu. Ég hef þegar rakið óvissuna sem hlýst af því að bíða án þess að tímasetja framhaldið og ég ætla ekki að fara frekar út í það, en ég held sem sagt að það skipti alveg töluvert miklu máli að fá botn í það hvaða leið íslenska þjóðin ætlar að feta varðandi gjaldmiðilsmálin í framtíðinni. Þá má ekki gleyma því að gjaldmiðlaskýrsla Seðlabankans sem kom út sumarið 2011 sló algjörlega í gadda að bara tvær leiðir kæmu til greina varðandi gjaldmiðil Íslands í framtíðinni, annars vegar að halda áfram með krónuna — og þá rifja ég upp að hæstv. fjármálaráðherra trúði fyrir nokkrum vikum, rétt eftir að hann hafði sest í sinn nýja stól, erlendri fréttastofu fyrir því að krónan yrði alltaf háð einhvers konar annmörkum eða höftum — og hins vegar að taka upp evruna á réttum tíma eins og Seðlabankinn sagði.

Ég tel þess vegna að á meðan það er ekki ljóst að íslenska þjóðin vilji feta þann veg sem felst í framhaldi viðræðnanna verði þessi mál alltaf í óvissu. Sú óvissa kemur niður á heimilunum, fyrirtækjunum, atvinnulífinu og Evrópusambandinu. Ég tel til dæmis að hún komi sérstaklega illa niður á þeim fyrirtækjum sem við horfum mest til varðandi sköpun starfa og verðmæta í framtíðinni, sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þau fyrirtæki hafa sagt hvert um annað þvert að þau þurfi stöðugra efnahagsumhverfi með stærra og öflugra myntsvæði. Ég óttast, herra forseti, að ef við fáum ekki hreinar línur í þetta muni þessi fyrirtæki greiða atkvæði með fótunum. Þau munu fara. (Gripið fram í.)

Þetta eru ekki síst rökin fyrir því að við eigum að reyna að fá hreinar línur í þetta mál með fyrra fallinu. Þessi tillaga gengur út á það að við notum sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári og ég held að það væri farsælt fyrir þingið. Miðað við þær röksemdir sem ég hef lagt fram ættum við að geta fallist á það hvort sem við erum með eða á móti aðild.