142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

8. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðum um þessa þingsályktunartillögu. Ég hef þegar lýst aðdáun minni á annarri þeirra ræðna sem hér voru fluttar í dag. Mér þótti ræða hv. þingmanns sem talaði áðan vera alveg prýðileg. Ég var ósammála mörgu sem hv. þingmaður sagði og því miður get ég ekki svarað þeim spurningum sem hann varpaði til mín um hvort misfarist hefði í þýðingum. Ég taldi þó að hv. þingmaður væri að vísa beint í samtal sem ég hefði átt á ensku og þá þykir mér í hæsta máta ólíklegt að það hafi misfarist í þýðingu vegna þess að ég fór yfirleitt yfir þýðingarnar sjálfur og vissi gjörla hvað ég sagði á enskri tungu í þeim viðtölum sem ég veitti oft og tíðum.

Hinn möguleikinn sem hv. þingmaður varpaði fram var hvort vísvitandi væri verið að koma röngum skilaboðum á framfæri, svo er ekki. Það er algerlega ljóst. Í fyrsta lagi kæmi það alltaf eins og búmerang í hausinn á manni sjálfum ef maður reyndi í svona stóru og viðamiklu máli að fara fram með einhverjar misvísandi staðreyndavillur, reyna að blekkja. Það gengur ekki. Það er bara ekki hægt í fjölmiðlasamfélagi þegar um er að ræða svona stórt og flókið mál. Sá möguleiki er algerlega frá.

Í öðru lagi gerðum við okkur jafnan far um að hafa allt sem opnast. Ég held að enginn utanríkisráðherra í sögunni hafi haft jafn marga fundi með hv. utanríkismálanefnd og ég á þessum tíma. Satt að segja var ég alltaf boðinn og búinn til að skoppa á þeirra fund af hvaða tilefni sem var. Stundum voru þau ærin, stundum ansi smá. Alltaf kom ég þó og var heiður að því og þótti gaman að vera þar.

Við settum jafnframt alla skapaða hluti á netið um leið. Það eina sem var hægt að finna að hjá okkur varðandi það var í upphafi máls. Eins og hv. þingmaður man fólust fyrstu skref umsóknarinnar í því að svara frá Evrópusambandinu 2.800 spurningum. Við gerðum það og settum spurningarnar á netið á enskri tungu í upphafi. Síðan var því breytt eins og hv. þingmaður veit og allt var þýtt og sett á íslensku.

Til að leiðrétta örlítinn misskilning sem mér fannst örla á hjá hv. þingmanni um það hvaða kaflar væru opnir og hverjir ekki þá var staðan þegar kom að kosningum þannig að af 33 köflum sem um þarf að semja var einungis í fjórum köflum ekki búið að klára samningsafstöðu; í köflunum um, eins og hv. þingmaður veit, sjó og land, og tveimur köflum sem höfðu að geyma ákvæði sem tengdust sjávarútvegi, m.a. varðandi heimild til stofnunar fyrirtækja hér á landi og varðandi fjárfestingar. Þegar kosningum sleppti voru þessir fjórir kaflar algerlega óopnaðir en við vorum búin að klára samningsafstöðuna í 29, tveimur köflum var skilað til Evrópusambandsins án þess að það hefði verið hægt að opna þá og 16 kaflar voru undir í samningaviðræðum þegar kom að kosningum og 11 voru frá.

Þetta er líka ein af röksemdunum fyrir því að halda áfram. Við erum komin ansi langt. Það er búið að eyða í þetta miklum mannafla, miklum fjármunum, miklum tíma og vitaskuld gufar það ekki upp. Það liggur ákveðinn árangur eftir, töluvert mikill. Fyrir utan það sem ég nefndi hérna tel ég kannski ekki síst að ávinningarnir séu fólgnir í því að okkur tókst mjög að skerpa skilning Evrópusambandsins á sérstöðu Íslands.

Þá nefni ég í fyrsta lagi að þegar Evrópusambandið gerði skýrslu um Ísland og hæfni þess til að verða aðili að Evrópusambandinu var fjallað sérstaklega um sjávarútveg. Það var mjög merkilegt að í þeim kafla sem fjallaði um Ísland og sjávarútveg kom það algerlega skýrt fram af hálfu Evrópusambandsins að ef Ísland í fyllingu tímans yrði meðlimur í Evrópusambandinu mundi það leiða til marktækra breytinga á sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni. Þetta þýðir það sem sagt að Evrópusambandið er að fallast á að til að Ísland geti gengið inn verði að semja um sjó.

Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að það var ekki síst úr flokki hv. þingmanns sem því var haldið fram að í sjó væri um ekkert að semja. Minni ég líka á, af því að það stendur okkur miklu nær í tíma og hv. þingmaður var þá sestur á þing, að hingað kom helsti samningamaður Dana í sjávarútvegsmálum, Ole Poulsen, og hélt hér fyrirlestur á dögunum. Það var viðtal við hann síðast í fyrradag í Speglinum í Ríkisútvarpinu. Það kom algerlega skýrt fram hjá honum að hann teldi, miðað við sína reynslu, að ekki yrði erfitt fyrir Ísland að semja sig á sjávarútvegssviðinu inn í Evrópusambandið. Ég er algerlega þeirrar skoðunar líka. Ég tel að það yrði ekki erfitt.

En það er önnur saga og auðvitað er auðvelt að slengja slíku fram í ræðustól Alþingis. Annað er að draga það fram við samningaborðið. Þetta tel ég eigi að síður vísa til þess að þeir gera sér grein fyrir því að það þarf að semja og það liggur fyrir. Það er því rangt sem sagt var að ekkert væri um að semja.

Í öðru lagi er sérstaða Íslands í sjávarútvegsmálum svo rík. Ég gæti farið með margar röksemdir sem ég rakti fyrir þeim herrum og löfðum sem ég hitti í Evrópusambandinu. Eitt skiptir langmestu máli. Það er sú staðreynd að Ísland á ekki sameiginlega efnahagslögsögu með Evrópusambandinu. Það er algerlega öndvert við Noreg og gerir okkar stöðu allt aðra en Noregs.

Í þriðja lagi vildi ég nefna til marks um þann skilning sem við náðum upp á sérstöðu Íslands að þegar þáverandi forusturíki Evrópusambandsins sendi sínum eigin samningahópi bréf þar sem áréttuð var sérstaða Íslands varðandi landbúnaðinn og byggðamál gaf það skýr fyrirmæli um að í samningunum af hálfu Evrópusambandsins yrði að taka tillit til þeirrar sérstöðu. Þetta er fordómalaust. Okkur tókst ekki að finna nein fordæmi í þá veru í öðrum samskiptum Evrópusambandsins við aðrar þjóðir. Þetta hafði aldrei gerst áður.

Nær í tíma er svo að á líðandi vetri komu tvær mjög mikilvægar yfirlýsingar frá Evrópusambandinu. Annars vegar lýsti stækkunarstjórinn mjög jákvæðu viðhorfi, sem var breyting, gagnvart kröfum Íslands um bann við innflutningi á lifandi dýrum. Það var það sem hér hafði mest verið deilt um á Alþingi Íslendinga.

Hin var svo yfirlýsing viðskiptastjórans, Karel de Gucht. Hann gaf út opinbera yfirlýsingu eftir fund með mér núna síðla vetrar að það væri algerlega klárt að ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu yrði forræði og eignarhald á orkuauðlindum öldungis með sama hætti og áður. Allt skiptir þetta mjög miklu máli.

Að síðustu vil ég nefna eitt sérstaklega og leiðrétta þar með eða mótmæla ákveðinni staðhæfingu hjá hv. þingmanni, sem sagði að þetta væri aðlögunarferli. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvar hefur sú aðlögun átt sér stað? Mergur málsins er nefnilega þessi: Það sem okkur tókst sem engu ríki öðru hefur tekist í samningaviðræðunum við Evrópusambandið var að ná því fram að við þyrftum ekki að aðlaga okkur með því að breyta reglum, breyta lögum eða stofnunum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri einungis eftir að þjóðin hefði goldið sitt jáyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu við aðild sem slíkar breytingar hæfust, þegar í gadda væri slegið að þjóðin hefði sagt já, þá átti að gera það frá þjóðaratkvæðagreiðsludeginum og fram að fullgildingardegi eða innan ákveðinna annarra tímafresta sem um semdist í einstökum málaflokkum.

Það er röng staðhæfing, sem er náttúrlega margendurtekin af þeim sem eru andstæðir Evrópusambandinu, að hér hafi verið einhver sérstök aðlögun í gangi. Það er ekki. Það breytir ekki hinu að við erum nánast á hverjum einasta degi að aðlaga okkur að Evrópusambandinu en það er ekki vegna aðildarsamninganna. Það er vegna aðildar okkar að EES.

Hv. þingmaður á eftir að taka þátt í atkvæðagreiðslum hundruðum sinnum meðan hann situr á þingi, bara á þessu kjörtímabili sem er nýhafið, þar sem við munum með góðu eða illu samþykkja breytingar sem koma beint frá Brussel og við höfum engin áhrif á. Af því að hv. þingmaður er hluti af stjórnarliði mun hann ekki einu sinni geta leyft sér þann munað að sitja hjá.

Það að ganga í Evrópusambandið mundi að minnsta kosti gefa okkur vald til að hafa einhver áhrif, gefa okkur stöðu til að hafa einhver áhrif. Það höfum við ekki í dag.