142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

7. mál
[18:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ágæta ræðu þar sem hann fór í gegnum það starf sem hafði verið unnið í þessari nefnd sem ég átti þátt í sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hann kom rétt aðeins inn á framfærsluuppbótina sem ég ætlaði að ræða betur. Það er galli við þá uppbót að hún hefur eiginlega aldrei verið rædd. Hún var sett í reglugerð í september 2008 rétt fyrir hrun, eins og hv. þingmaður kom inn á. Síðan voru sett lög um félagslega hjálp. Ég er búinn að fara í gegnum umsagnir og umræðu um þau og hvergi er talað um þennan þátt þar. Framfærsluuppbótin fór inn umræðulaust og hafði bæði þá og áður haft mjög slæm áhrif vegna þess að þegar hún var tekin með, með skerðingu krónu á móti krónu, kom náttúrlega í ljós að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum gagnaðist fólki ekki neitt upp að 73 þús. kr.

Hv. þingmaður talaði um að framfærsluuppbótin hefði verið sett á til að bæta stöðu þeirra sem ekki eru með réttindi í lífeyrissjóði og eru ekki vinnandi. Þá kem ég aftur inn á það sem ég kom inn á rétt áðan og vil spyrja hv. þingmann um: Hvaða hópur fólks á ekki rétt í lífeyrissjóði? Það eru vissulega til fatlaðir sem eru fatlaðir alla ævi og eru ekki á vinnumarkaði, þeir eru um 4–5% þjóðarinnar, það er yfirleitt hlutfallið hjá þjóðum heims. Staða þess hóps hefur verið bætt mjög mikið þó að örugglega megi gera betur. Hún var mjög döpur. Sá hópur er á örorkulífeyri og síðan á ellilífeyri á grundvelli þess. Spurningin er: Hvaða hópar fólks eru ekki með réttindi í lífeyrissjóði?