142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessa spurningu. Þetta hefur verið mér afar hugleikið af því að ég var svo einstaklega stolt þegar ég sá niðurstöðurnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október, mér fannst skilaboðin eindregin og skýr.

Ég verð að segja að það að leggja fram þessa breytingartillögu er eins og blaut tuska í andlitið á mér sem tók þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og öllum þeim 83% sem sýndu eindreginn vilja í þveröfuga átt við það sem liggur hér á borðum. Það hryggir mig. Ég verð að segja að í raun og veru er viljinn svo skýr að það þarf nánast ekki aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta ætti að vera nægilegur dómur fyrir þessa ríkisstjórn frá þjóðinni um það hvað hún vill. Það er bara þannig.

Það var fleira sem var spurt um og var afgerandi meiri hluti og það hlaut líka þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin er miklu upplýstari og meðvitaðri um hvað hún vill en valdhafar vilja horfast í augu við. Kannski verður það svo að við þurfum að eiga þessa umræðu í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að það fari ekkert á milli mála að almenningur veit hvað er best fyrir hann. Það er ljóst að ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun að hunsa eindreginn vilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.