142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Til að svara fyrri spurningu eða yfirlýsingu fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þá vill svo til að við píratar höfum ítrekað reynt að fá svör frá skrifstofu forseta Íslands og síðast nú í dag. Þá var okkur sagt að ekki væri hægt að láta okkur vita hvort hann væri kominn, í gær eða í dag, og það lægi ekki fyrir hvort hann yrði á landinu þegar lögin yrðu undirrituð. Mér fannst það vera dónaskapur hvernig talað var við þann sem spurði, ég heyrði það bara út undan mér þegar hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni var svarað. Ég get fullvissað embættismenn hér um að við mundum ekki fara að rjúfa trúnað. Við þurfum bara að vita hvort — og ég er ekki að segja að forsetinn sé ekki tilbúinn að standa með þjóðinni, þvert á móti. Mér finnst það vera prófsteinn fyrir hvern þann sem er í embætti, hvort sem það er hann eða einhver annar, á það hvort ekki sé full ástæða — og það sem ég upplifi og ég er alveg sammála, mér finnst að við eigum að taka þinglegu leiðina, að sjálfsögðu. En ég vil sjá það útfært þannig að ég sé ekki enn og aftur að hlaupa fram með yfirlýsingar sem ég get síðan ekki staðið við. Ég þarf að sjá þetta útfært og sjá hvort þetta er mögulegt.

Það þarf væntanlega meiri hluta þings. Kannski er hv. þingmaður betur meðvitaður um framsetningu á þessu því að hann hefur nú töluvert meiri þingreynslu en sá þingmaður sem hér talar.