142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ræðuna. Mig langaði aðeins að inna hv. þm. Ögmund Jónasson eftir lýðræðisvinklinum. Hann fór yfir hann í ræðu sinni og gerði það vel.

Mig langaði að vita hvað þingmanninum finnst um þann yfirgnæfandi meiri hluta almennings sem kallar eftir því að fá að hafa áhrif á samfélag sitt og í þessu tilfelli erum við að tala um að yfir 35 þúsund manns hafa sett nafn sitt á undirskriftarlista sem kallar eftir því að þessum lögum verði ekki breytt. Ég geri mér grein fyrir því að þessi lög eru ekki alslæm, en það sem fólk er að kalla eftir er að þeir 6 milljarðar sem áttu að fara að renna inn í ríkissjóð, sem þarf svo mjög á að halda, verði ekki að engu fyrir almannaheill.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort honum finnist tilefni til þess að reyna að finna leið til að þingið beiti sér fyrir því að þjóðin hafi einhver áhrif á lögfestingu á málinu eða hvort réttara sé að kalla eftir því að forseti lýðveldisins vísi málinu til þjóðarinnar.

Nú hefur komið fram að 70% þjóðarinnar vilja að þetta sé óbreytt. Hver finnst þingmanninum vera réttasta leiðin til þess að ná að framfylgja þeirri ítrekuðu ósk landsmanna?