142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Væri það kannski heillavænlegasta leiðin fyrir meiri hlutann og fyrir þjóðarbúið ef orðið yrði við breytingartillögum minni hlutans á þessum lögum, þessum breytingum?

Mig langaði jafnframt að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson — ég man eftir því þegar við vorum í þessu mikla karpi um Icesave að það var áberandi utan frá, en innan frá var unnin mikil og góð þverpólitísk vinna í að finna bestu mögulegu lausnina. Telur þingmaðurinn það vera gott aðhald að fá svona skýr skilaboð úr samfélaginu, hvort sem möguleiki er á að framfylgja því eða ekki? Á þetta ekki að hjálpa til þess að við vinnum vandaðri vinnu hér innan húss, í nefndum til dæmis, og finnum þverpólitíska sátt? Hefur þingmaðurinn fundið fyrir þessum vilja hjá meiri hlutanum?

Við náðum ótrúlega góðum árangri, sérstaklega með Icesave I, með þessu þverpólitíska starfi þar sem allir lögðust á eitt við að laga það sem var ónýtt alveg eins og þessi lög birtast manni, það er of mikið af göllum í þeim til að hægt sé að sætta sig við að bjóða þjóðinni upp á það, sem er að kalla eftir því að fá arð af auðlindinni sinni, fá hluta af honum, brotabrot — og það er ekki eins og verið sé að skattleggja fólkið sem nýtur þess að fá að sýsla með okkar burðarbita sem er undirstaða alls samfélagsins.