142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:02]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Það má túlka mín orð eins og hver vill. Það sem ég hef sagt er að ég bauð mig fram hérna sem útgerðarmaður og sem talsmaður sjávarbyggða og útgerðar. Mér fannst það ekkert of mikið þó að það væri einn af 63 þingmönnum úr útgerð. Mér sýnist nú á þessari umræðu og nefndarstarfi að það hafi ekkert veitt af því.

Varðandi hagsmunatengslin. Við lýstum því yfir á öllum fundum að veiðigjaldið væri of hátt. Ég er í bæjarstjórn Grindavíkur. Ég skilaði inn umsögn ásamt allri bæjarstjórninni í fyrra um að veiðigjaldið væri allt of hátt. Það voru fleiri í þeirri bæjarstjórn. Einn af þeim er kominn inn á þing. Núna hentar það bara ekki að vera á þeirri skoðun að lækka veiðigjald. Ég spyr bara: Hvernig geta menn snúist svona á innan við ári? Sem bæjarstjórnarmaður var ég að verja hagsmuni sveitarfélagsins og benda á arðsemi eða benda á samfélagið í heild. Ég er enn þá á þeirri skoðun. Það er ekkert nýtt. Ég var ekki keyptur til þess. Það eru alls konar fyrirtæki sem styrkja þessa flokka. Það er ekki eins og það séu bara sjávarútvegsfyrirtæki. Ég veit að sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að styrkja hina flokkana. Ég veit það bara að það hefur verið gert þar sem ég þekki til. (Forseti hringir.) Þau hafa styrkt þessa flokka líka þó að þeir séu ekki í ríkisstjórn í dag.