142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[16:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að styðja að Seðlabankinn fái þær heimildir sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Um það var rík samstaða í nefndinni að engu að síður bíður nefndin eftir því að fram komi heildstætt frumvarp í haust um umgjörð um fjármálastöðugleika og um fjármálastöðugleikaráð sem er afskaplega mikilvægt. Við þurfum að ljúka því verki sem við höfum verið að vinna undanfarin ár um nýja umgjörð fjármálastöðugleika sem tryggir hinu pólitíska valdi fullnægjandi yfirsýn yfir hættu sem getur myndast hvað varðar fjármálastöðugleika, tryggir að eftirlitsstofnanir upplýsi hið pólitíska vald — og ekki bara ráðherrann einan heldur að ráðherrann geti síðan deilt þeim upplýsingum með stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir slys af þeim toga sem við þekkjum því miður allt of vel úr fortíðinni.