142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:30]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Björt Ólafsdóttur. Helsta gagnrýni mín á 1,5% niðurskurð hjá LÍN er aðdragandi hans. Hann kemur allt of seint fyrir þetta ár. Námsmenn hafa nú þegar undirbúið sig fyrir þetta námsár eftir drögum að námskrám sem nú þegar hafa borist þeim. Í hið minnsta hefði mátt vera fyrirvari um að breytingar væru í bígerð.

Þessi niðurskurður og aukin krafa á námsmenn er gerð í hálfgerðu bríaríi ef afleiðingarnar eru skoðaðar. Til að mynda þurfa námsmenn sem eru að klára nám nú oft að bæta við sig óþarfaáföngum aðeins til að uppfylla ný skilyrði. Með þessu erum við að biðja fólk að lengja námstíma sinn og bæta á sig óþarfaálagi til að vera lánshæft og geta klárað námið. Þarna er að sjá öfugmæli miðað við boðaðan niðurskurð, meiri útlát verða í námskerfinu með lengdum námstíma hvers námsmanns sem þarf að fara þessa leið til að uppfylla skilyrðin.

Herra forseti. Mín skoðun er sú að ef LÍN, ríkissjóður og menntakerfið ættu að koma vel út úr svona vinnu þyrfti lengri tíma til að útfæra hana svo við séum ekki að tala þvert við okkur sjálf þótt ég skilji að niðurskurður þurfi að verða á einhverjum sviðum.