142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

ástandið á lyflækningasviði LSH.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að verið sé að vinna að tillögum til að taka á þessu vandamáli á Landspítalanum. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að vinna hratt í þeim efnum. Ég held að það sé spurning um vikur, jafnvel daga áður en eitthvað mjög alvarlegt gerist á Landspítalanum, sérstaklega á lyflækningasviði.

Ég hef verið að kynna mér þessi mál og hvað menn telja sigurstranglegar lausnir á því. Það er náttúrlega augljóst að hér er um langvarandi vanda að ræða vegna langvarandi niðurskurðar. Það er stjórnunarvandi þarna, einhver mannauðsstjórnunarvandi í raun og veru, samskiptavandi sem þarf að fara í og reyna að leysa. Það þarf auðvitað líka einhvers konar þjóðarsátt um mikilvægi Landspítalans, einfaldlega til að fólk um allt land átti sig á því hversu mikilvæg þessi stofnun er. Það þarf að tala skýrt í húsnæðismálum og hafa eitthvert plan í þeim efnum. Það eru ákveðnar stjórnskipulagsbreytingar sem þarf að gera eins og hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi, (Forseti hringir.) t.d. vantar faglega yfirstjórn á lyflækningasviði. (Forseti hringir.) Það er eitt og annað. Þetta er marghliða vandi og ég fagna því að það sé verið taka (Forseti hringir.) á honum.