142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

hjúkrunarrými á Suðurnesjum.

[15:31]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Verulega hallar á Suðurnesin þegar fjöldi hjúkrunarrýma og framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru borin saman við aðra landshluta. Á tímabilinu 2000–2010 voru úthlutanir úr framkvæmdasjóðnum til Suðurnesja aðeins 1,5% af heildinni en 5% aldraðra búa á Suðurnesjum. Úthlutanir til svæðisins nema því aðeins 30,4% af því sem fjöldi aldraðra gefur tilefni til.

Fæst hjúkrunarrými eru á Suðurnesjum á landinu á hverja þúsund íbúa, 5,4, en landsmeðaltalið er 7,4.

Með tilkomu nýs 60 rýma hjúkrunarheimilis á Nesvöllum í Reykjanesbæ er áætlað að hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum fjölgi um sjö og verður þar með heimild fyrir 121 hjúkrunarrými á öllum Suðurnesjum. Umræðan hefur snúist um hvort loka eigi Garðvangi í Garði þegar rýmin á Nesvöllum hafa verið tekin í notkun. Samkvæmt skýrslu frá Haraldi L. Haraldssyni hagfræðingi sem kynnt hefur verið fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra verður áfram skortur á rýmum á Suðurnesjum þrátt fyrir tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum.

Samkvæmt samþykkt svæðisskipulags Suðurnesja sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum luku við að staðfesta í desember 2012 er stefnan meðal annars sú að fjölga hjúkrunarrýmum til samræmis við aðra landshluta og byggja upp öldrunarþjónustu á hverjum stað fyrir sig.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á við alvarlegan rekstrarvanda að etja. Hingað til hefur stofnunin fengið greitt fyrir hjúkrunarrými sem ekki hafa öll verið nýtt. Þegar þetta fjármagn flyst frá HSS til reksturs hjúkrunarheimilisins á Nesvöllum eykst rekstrarvandi stofnunarinnar hættulega mikið.

Því spyr ég ráðherra: Ætlar hann að beita sér fyrir því að fjölga hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum svo að þau nái að minnsta kosti meðaltali á landsvísu? Væri ekki rétt að setja reglur um úthlutun hjúkrunarrýma og fjárheimilda til uppbyggingar hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða til landshluta þannig að hún sé sanngjarnari og jafnari? Hvernig ætlar ráðherra að beita sér í málefnum HSS? Hver er hans sýn á heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum? Mun hann beita sér fyrir því að tryggja (Forseti hringir.) rekstur þeirrar stofnunar til framtíðar?