142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að nota tækifærið og fagna þeirri ákvörðun hæstv. utanríkisráðherra sem tilkynnt var og hefur birst í fjölmiðlum í dag varðandi samninganefndina um Evrópusambandsaðildarviðræðurnar sem fyrri ríkisstjórn lagði til og fékk samþykkt hér í þinginu að færu af stað, ákvörðun ráðherra um að nú lægi það fyrir að nefndin mundi ekki starfa lengur.

Ég hlakka til að fylgjast með umræðunni um Evrópumál hér á eftir. Ég mun ekki eiga þess kost að taka þátt í henni en ég er þess fullviss að við erum á réttri leið í þessu stóra og mikilvæga máli. Ég hlakka til að hlusta á ræðu hæstv. ráðherra á eftir og bíð jafnframt spennt eftir því að fá að heyra af þeim aðgerðum og þeirri áætlun sem ráðherrann er að undirbúa varðandi norðurskautsmálin sem hæstv. forsætisráðherra vék aðeins að í ræðu hér fyrr í vikunni.