142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína áðan að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fór yfir ákveðnar tölur þegar hann nefndi þann milljarð sem samið var um að færi á höfuðborgarsvæðið í samgöngur, þ.e. almenningssamgöngur, sú sáralitla upphæð, að verið væri að plokka af henni. Og til að setja fólk inn í það samhengi þá er það þannig að einhverra hluta vegna var samið um að það svæði á landinu þar sem alvarlegustu umferðarslysin eru, þar sem flest umferðarslysin eru, að þar yrði ekkert gert í samgöngumálum, ekkert, næstu tíu árin.

Á móti kom þessi eini milljarður sem átti að fara í almenningssamgöngur, sem er auðvitað sáralítil upphæð í öllu samhenginu, en nú kemur í ljós að verið er að plokka af honum til annarra svæða og örugglega allt til þarfra verka. En ástæðan fyrir því að ég tel, og hef lagt á það áherslu, að þetta sé afskaplega óskynsamleg ráðstöfun er sú að í Reykjavík, ekki á höfuðborgarsvæðinu, heldur í Reykjavík er langmestur fjöldi alvarlegra slysa. Alvarleg slys eru skilgreind þannig að viðkomandi nær aldrei fullum bata.

Nú eru alvarleg slys og dauðsföll þannig að auðvitað er ekki hægt að meta afleiðingar þeirra til peninga. Þó hefur það verið reynt og var reynt af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands en afskaplega lítil umræða hefur verið um þetta. Kostnaðurinn er á hverju ári 23 milljarðar kr. Ég hvet alla hv. þingmenn og þjóðina alla að hugsa þetta mál, hvort skynsamlegt sé að taka út þann stað á landinu þar sem alvarlegustu slysin verða og segja: Við ætlum ekki að gera neitt hér næstu tíu árin.